Sport

Hljóp á há­marks­hraða Hopp-hjóla í þrjá kíló­metra og sló 28 ára heims­met

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Jakob Ingebrigtsen fagnar heimsmeti sínu í Póllandi í gær en það hafði staðið í næstum því þrjá áratugi.
 Jakob Ingebrigtsen fagnar heimsmeti sínu í Póllandi í gær en það hafði staðið í næstum því þrjá áratugi. Getty/Andrzej Iwanczuk

Norðmaðurinn Jakob Ingebrigtsen bætti í gær heimsmet sem var fjórum árum eldra en hann sjálfur.

Ingebrigtsen hljóp þá 3.000 metra hlaup karla á móti í Póllandi á sjö mínútum, sautján sekúndum og 55 hundraðshlutum. Ótrúlegur tími hjá þessum 23 ára strák.

Hann bætti heimsmetið frá 1996 um meira en þrjár sekúndur. Gamla metið var Keníamaðurinn Daniel Komen búinn að eiga í næstum því 28 ár. Það var 7:20.67 mín.

Það var allt gert til að halda uppi hraðanum í hlaupinu í gær og aðstoða Ingebrigtsen þar með við að bæta metið. Tveir hérar voru sem dæmi í hlaupinu.

Ingebrigtsen fæddist 19. september árið 2000 en gamla heimsmetið setti Komen 1. september 1996.

En hversu hratt hljóp sá norski? Jú, hann var með meðalhraða upp á 24,7 kílómetra á klukkustund þessar rúmu sjö mínútur og sautján sekúndur.

Það þekkja margir að ferðast um á rafskútum hér á Íslandi og þau fara ekki hraðar en 25 kílómetra á klukkustund. Hann hljóp því á hámarkshraða Hopp-hjóla í heila þrjá kílómetra.

Hann hljóp jafnframt hvern hring (400 metrar) að meðaltali á 58,34 sekúndum. Alveg mögnuð frammistaða frá nýkrýndum Ólympíumeistara í 5.000 metra hlaupi í París.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×