Enski boltinn

Telur Orra Stein ekki á leið til Man City að svo stöddu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Orri Steinn er líklega ekki á leið til Manchester City í sumar.
Orri Steinn er líklega ekki á leið til Manchester City í sumar. AP Photo/Dave Thompson

Á sunnudaginn var Orri Steinn Óskarsson, framherji íslenska landsliðsins í knattspyrnu og FC Kaupmannahafnar, orðaður við Englandsmeistara Manchester City. Blaðamaður sem sérhæfir sig í liði Man City telur Orra Stein ekki vera á leið til liðsins að svo stöddu.

Hinn áreiðanlegi David Ornstein hjá The Athletic opinberaði á sunnudag að Orri Steinn væri á blaði hjá Man City. Í frétt Ornstein sagði þó að hann teldi Íslendinginn ekki á leið til félagsins í sumar.

Nú hefur Sam Lee, kollegi Ornstein hjá Athletic, tjáð sig um fréttirnar en hann vinnur við að fjalla um lið Man City. Lee ræddi við danska fjölmiðilinn Tipsbladet í dag um áhuga félagsins á Orra Steini. Í því samtali kom fram að Orri Steinn væri vissulega á blaði hjá Man City sem og Kyogo Furuhashi sem spilar með Celtic.

„Í síðustu viku heyrði ég Pep (Guardiola, þjálfara Man City) segja að hann teldi sig ekki þurfa á nýjum framherja að halda,“ sagði Lee en talið var að Englandsmeistararnir myndu festa kaup á framherja eftir að Julián Alvarez var seldur til Atlético Madríd.

Það er ljóst að sama hvaða framherji gengur í raðir Man City þá mun sá hinn sami vera í því hlutverki að leysa Erling Haaland af þegar Norðmaðurinn væri hvíldur. Lee sér Orra Stein ekki í því hlutverki sem stendur.

Orri Steinn hefur byrjað tímabilið í Danmörku af krafti og skorað fimm mörk í sex leikjum í deild ásamt því að gefa eina stoðsendingu. Þá hefur hann skorað tvö mörk í fimm leikjum í forkeppni Sambandsdeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×