Sport

Fékk fimm milljarða fyrir að skrifa undir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
CeeDee Lamb getur hætt sínu verkfalli og farið að undirbúa sig almennilega fyrir tímabilið. Þar er búist við því að hann geri góða hluti með Dallas Cowboys.
CeeDee Lamb getur hætt sínu verkfalli og farið að undirbúa sig almennilega fyrir tímabilið. Þar er búist við því að hann geri góða hluti með Dallas Cowboys. Getty/Cooper Neill

Kúrekarnir frá Dallas eru loksins búnir að ganga frá sínum málum við stjörnuútherjann CeeDee Lamb. Besti maður liðsins getur farið að einbeita sér að NFL tímabilinu sem hefst í næstu viku.

Lamb hefur ekkert æft né spilað með Dallas Cowboys á undirbúningstímabilinu þar sem hann var að pressa á nýjan samning.

Lamb hefur nú samþykkt nýjan fjögurra ára samning sem hann fær fyrir 136 milljónir dollara eða 18,7 milljarða króna. Lamb var á fimmta og síðasta ári nýliðasamnings síns og hefði getað yfirgefið félagið næsta sumar. Nú er hann hins vegar með samning til ársins 2028.

Með þessu verður Lamb næstlaunahæsti leikmaður í deildinni af þeim leikmönnum sem eru ekki leikstjórnendur. Það er aðeins útherjinn Justin Jefferson hjá Minnesota Vikings sem fær meira eða 35 milljónir á ári. Lamb verður nú með 34 milljónir dala á ári.

Lamb sló þó öllum útherjum við með því að fá 38 milljónir Bandaríkjadala inn á reikning sinn um leið og hann skrifar undir. Það eru 5,2 milljarðar í íslenskum krónum.

Lamb er líka öruggur með hundrað milljónir dala, 13,7 milljarða króna, sama hvernig allt fer hjá honum þessi fjögur ár.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×