Greint var frá því fyrr í vikunni að Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur við Háskóla Íslands, hafi sagt veginn hafa færst að meðaltali um einn metra á ári í átt til sjávar.
Mikil tilfærsla hefði orðið á veginum síðustu daga vegna mikillar úrkomu og tilfærslan á mánudag og þriðjudag mælst sjö sentímetra þar sem hún væri sem mest. Nýverið þurfti að loka veginum í einhverja daga vegna vatnsveðurs og skriðufalla.

Bjarni tjáði Feyki í gærkvöldi að hann mæti stöðuna grafalvarlega og hættuna mikla. Hann hafi átt fund með Sigríði Ingvarsdóttur, bæjarstjóri Fjallabyggðar, og Jóhanni K. Jóhannssyni, slökkviliðsstjóra Fjallabyggðar, í gær þar sem farið var yfir stöðuna á veginum.
Bjarni greinir í samtali við Feyki frá því að hann hafi boðað til fundar en samkvæmt heimildum fréttastofu óskaði nefndarmaðurinn Ingibjörg Ísaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokks, eftir því á mánudag að nefndin kæmi saman til fundar um málið. Formaðurinn hafi svo nú boðað til fundarins.
Bæjaryfirvöld í Fjallabyggð hafa lengi barist fyrir því að boruð verði jarðgöng milli Siglufjarðar og Fljóta til að koma í veg fyrir að fólk þurfi að aka veginn. Í samtali við Feyki segist Bjarni vera því sammála að flýta eins og nokkur kostur væri gerð slíkra ganga sem myndi leysa „þessa hættulegu leið af hólmi“.