Fyrr í dag var greint frá því að Orri Steinn væri á leið til Sociedad en FCK hafði þegar neitað tilboði frá spænska liðinu í sumar. Í kvöld birtist svo mynd af leikmanninum í einkaflugvél á leið til Spánar ásamt umboðsmanni sínum.
Nú hefur FCK staðfest söluna á þessum tvítuga framherja sem hefur byrjað yfirstandandi tímabil af miklum krafti. Hann gekk í raðir FC Kaupmannahafnar frá Gróttu árið 2020 og var seldur tæpum fjórum árum síðar á 20 milljónir evra eða þrjá milljarða íslenskra króna. Staðgreiðir Sociedad leikmanninn.
Tímabilið 2021-22 varð hann markahæsti leikmaður U-19 ára deildarinnar í Danmörku þar sem hann skoraði alls 29 mörk. Síðan hann fór að spila með aðalliði félagsins hefur hann skorað 23 mörk í 62 leikjum, þar af sjö í upphafi þessarar leiktíðar.
„Ég bjóst ekki við því að ég myndi yfirgefa FCK á þessum tímapunkti. Ég skrifaði nýverið undir nýjan samning og bjóst því ekki við að vera á förum. En ég get ekki sagt nei við því að verða aðalframherji í jafn góðu liði og Real Sociedad í jafn sterkri deild og La Liga,“ sagði Orri Steinn í viðtali við vefsíðu FCK.
„ég vonast til að hafa hjálpað FCK að komast á betri stað þó það sárt að kveðja félagið, borgina og alla vini mína í Kaupmannahöfn. Ég á svo mörgu fólki svo mikið að þakka og verð að eilífu þakklátur þeirri kennslu sem ég hef fengið bæði innan vallar sem utan,“ sagði framherjinn sjálfur að lokum.
Þá hefur Real Sociedad kynnt íslenska framherjann til leiks með myndbandi og mynd á samfélagsmiðlum sínum. Á myndinni, sem er efst í fréttinni, er víkingurinn Orri boðinn velkominn til San Sebastian.
Í myndbandinu má svo sjá bæði mörk og stoðsendingar hans fyrir FCK, Sönderjyske og yngri landslið Íslands.