Leiðtogar verkalýðsfélaga hafa sagst ætla að una úrskurðinum en fjölskyldur gísla hafa kallað eftir áframhaldandi mótmælum, samkvæmt frétt Times of Israel.
Miðillinn hefur eftir Arnon Bar-David, leiðtoga Histadrut, stærsta verkalýðsfélags landsins, að hann muni virða úrskurðinn. Hann kallaði eftir allsherjarverkfalli í gær og segir að mótmælin hafi sent mjög skýr skilaboð. Þrátt fyrir að reynt hafi verið að mála mótmælin sem pólitísk hafi hundruð þúsunda sýnt samstöðu.
Skipuleggjendur áætla að um hálf milljón manna hafi mótmælt víðsvegar um Ísrael.
Sjá einnig: Ben Gurion lokað og ýmis starfsemi lömuð
Mótmælin hafa víða verið töluvert umfangsmikil og hafa leitt til lokanna. Á ýmsum stöðum hefur farið minna fyrir mótmælunum en í frétt AP fréttaveitunnar segir að það sé til marks um pólitíska gjá í Ísrael.
Fjölskyldur þeirra gísla sem enn eru í haldi hafa eins og áður segir kallað eftir áframhaldandi mótmælum og verkföllum.
„Þetta snýst ekki um verkföll. Þetta snýst um að bjarga þeim 101 gísl sem voru yfirgefnir af Netanjahú [Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra] síðasta fimmtudag,“ segir í yfirlýsingu frá fjölskyldunum.
Þar vísa þau til ákvörðunar ráðherra ríkisstjórnar Netanjahú að halda áfram hernámi á svæði á Gasaströndinni sem leiðtogar Hamas vilja að Ísraelar hörfi frá.
Talið er að um þriðjungur þeirra gísla sem enn eru í haldi Hamas séu látnir.