Erlent

Bað ísraelsku þjóðina af­sökunar

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Netanjahú ávarpaði ísraelsku þjóðina í kvöld eftir allsherjarverkfall fór fram í landinu í dag. 
Netanjahú ávarpaði ísraelsku þjóðina í kvöld eftir allsherjarverkfall fór fram í landinu í dag.  EPA

Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels baðst afsökunar á að hafa ekki beitt sér nægilega fyrir lausn gísla í haldi Hamas á blaðamannafundi fyrr í kvöld.

Nokkur hundruð þúsund Ísraelsmenn lögðu niður störf í dag í mótmælaskyni eftir að sex gíslar í haldi Hamas fundust látnir á laugardag. Fjölskyldur gíslanna og fjöldi mótmælenda kenndu forsætisráðherranum um dauða gíslanna, samkvæmt umfjöllun AP

Netanjahú kom fram á blaðamannafundi í dag í fyrsta skipti frá því að mótmæli Ísraelsmanna hófust á laugardag eftir að fréttir bárust um að gíslarnir hefðu fundist. 

Þar sagðist hann munu halda áfram að berjast fyrir þeirri kröfu sem hann hefur áður lagt fram, en í henni felst meðal annars yfirráð yfir Philadelphi-svæðinu nærri landamærum Gasa og Egyptalands. Netanjahú heldur því fram að Hamas smygli vopnum um það svæði inn á Gasa en bæði Hamas og egypsk yfirvöld hafna að svo sé.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði við fréttamenn fyrir utan Hvíta húsið í dag að Netanjahú væri ekki að beita sér nægilega fyrir því að ná samningum um vopnahlé. Eftir ellefu mánaða stríðsrekstur þyrfti hann að ná samningum. 

Á blaðamannafundinum sagði Netanjahú engan jafn staðráðinn í að leysa þá gísla sem enn eru í haldi Hamas og hann. Jafnframt baðst hann afsökunar á að hafa ekki náð að leysa þá gísla sem fundust látnir úr haldi Hamas í tæka tíð. 

Hamas-samtökin hafa sakað ísraelsk yfirvöld um að tefja samningaviðræður með því að vera stöðugt að bæta nýjum kröfum við vopnahléstillögur, til að mynda um yfirráð yfir Philadelphi-svæðinu. Hamas hefur lagt til lausn allra gísla gegn því að stríðinu ljúki, allar hersveitir Ísraelshers hörfi frá Gasa og Ísrael láti palestínska fanga lausa. 

Netanjahú hefur aftur á móti heitið „fullnaðarsigri“ á Hamas og kennir samtökunum um að enn hafi ekki nást að semja um vopnahlé. Á blaðamannafundinum í dag sagðist hann reiðubúinn fyrir fyrsta fasa vopnahlés, en í honum fælist lausn nokkurra gísla gegn brotthvarfi ísraelskra hersveita að hluta til. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×