Mondo Duplantis, heimsmethafi í stangarstökki, og Karsten Warholm, heimsmethafi í 400 metra grindahlaupi, ákváðu að mætast í 100 metra spretthlaupi.
Hlaupið er í kvöld, sólarhring áður en þeir keppa svo í sínum hefðbundnu greinum á Demantamóti á sama stað.
Warholm hefur leitað ráða hjá sjálfum heimsmethafanum Usain Bolt á meðan að Duplantis hefur verið að æfa ræsingu með bandaríska spretthlauparanum Fred Kerley. En af hverju eru félagarnir að keppa í 100 metra hlaupi?
„Ég held að þetta hafi verið mín hugmynd. Núna er maður svona að átta sig á þessu, þegar maður er mættur og sér hvernig þetta lítur út. Áður var ég bara afslappaður og þetta var bara skítkast á milli tveggja manna sem vildu skora hvor á annan,“ sagði Duplantis.
„Þegar menn takast í hendur þá verður þetta að verða að veruleika. Við Mondo bjuggum ekki til eftirvæntinguna fyrir þessu, ég held að keppnin geri það sjálf. Fólk vill sjá eitthvað svona. Þetta er nýtt og spennandi. Ég veit ekki einu sinni sjálfur hvor okkar vinnur en ég hefði ekki tekið í höndina á honum ef ég væri ekki sjálfsöruggur, það er á hreinu,“ sagði Warholm.
Síðustu skráðu tímar þeirra tveggja í 100 metra hlaupi eru nokkuð svipaðir. Warholm hljóp á 10,49 sekúndum árið 2017 og Duplantis á 10,57 árið 2018. Warholm segir að það verði hart barist:
„Þetta er eins og þegar maður var í gamnislag við félaga sína í æsku, þetta verður alltaf alvarlegt á einhverjum tímapunkti. Núna eru menn bara léttir en þegar við mætum á ráslínuna þá mun gamanið kárna. Þetta verður hundaslagur.“
Duplantis viðurkennir að Warholm sé sigurstranglegri: „Þegar kemur að hlaupum þá er ég lægra skrifaður. Það er kannski aðeins meiri umræða um mig núna því ég var að slá heimsmetið á Ólympíuleikunum en þetta verður alltaf æsispennandi hlaup,“ sagði Duplantis.