Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að félög kaupi eigin hlutabréf af hluthöfum. Yfirleitt er tilgangurinn sá að lækka hlutafé félags og skila með þeim hætti verðmætum til hluthafa. Jafnframt kann félag að hafa í hyggju að eignast eigin hlutabréf í því skyni að efna skuldbindingar samkvæmt kaupréttarsamningum við starfsfólk eða nota sem gagngjald í viðskiptum með hlutabréf í öðrum félögum eins og ýmis dæmi eru um. Þá hefur enn fremur verið litið svo á að félög geti átt viðskipti með eigin hlutabréf til þess að tryggja að fyrir hendi sé markaður fyrir hluthafa sem vilja selja eigin bréf og þá sem vilja gerast hluthafar í félagi.
Á síðustu árum hafa skráð félög hér á landi keypt til baka eigin hlutabréf á markaði fyrst og fremst í gegnum sérstakar endurkaupaáætlanir. Slíkar áætlanir skapa ákveðinn ramma utan um framkvæmd endurkaupa. Tilkynnt er um umfang slíkrar áætlunar áður en endurkaup á grundvelli áætlunarinnar hefjast og svo er reglulega tilkynnt um framgang endurkaupa samkvæmt áætluninni á meðan hún er í gildi.
Endurkaup á grundvelli endurkaupaáætlana lúta ströngum reglum samkvæmt markaðssvikareglugerð Evrópusambandsins, jafnan vísað til sem MAR, svo sem um gagnsæi og framkvæmd viðskipta. Kosturinn við að fylgja umræddum reglum felst í því að ákvæði MAR um bann við annars vegar innherjasvikum og hins vegar markaðsmisnotkun gilda ekki um viðskipti með eigin hlutabréf í endurkaupaáætlun sem fara fram í samræmi við téðar reglur. Fari endurkaup fram í samræmi við reglur MAR njóta þeir sem standa að endurkaupunum með öðrum orðum verndar frá reglum um bann við innherjasvikum og markaðsmisnotkun, ólíkt því sem gildir um þá sem standa að endurkaupum með öðrum hætti. Til mikils er því að vinna að fylgja ströngum skilyrðum MAR um endurkaup.
Þegar rökin að baki reglum um bann við innherjasvikum og markaðsmisnotkun eru höfð í huga fæst heldur ekki séð að það skipti nokkru máli hvort endurkaup hafi einn sérstakan tilgang umfram annan.
Eitt af þeim skilyrðum sem MAR setur endurkaupum, eigi þau að falla undir áðurnefnt „verndarsvæði“, er það að endurkaupin hafi þann eina tilgang að (i) lækka hlutafé félags, (ii) standa við skuldbindingar sem leiða af skuldabréfum sem eru skiptanleg í hlutabréf eða (iii) efna skuldbindingar sem leiða af kaupréttarsamningum við starfsfólk. Hafi endurkaupin annan tilgang en að framan greinir – til dæmis þann tilgang að safna hlutabréfum til þess að nota sem endurgjald í yfirtöku á öðru félagi – uppfylla endurkaupin ekki skilyrði MAR og þeir sem standa að þeim njóta ekki verndar frá reglum MAR um bann við innherjasvikum og markaðsmisnotkun. Slíkt er bagalegt, enda geta ýmsar aðrar – fullkomlega gildar – ástæður legið að baki endurkaupum án þess þó að þær séu sérstaklega tilgreindar í MAR.
Tilgangslaus tilgangsregla
Ekki fæst með góðu móti séð af hverju MAR takmarkar endurkaup við ákveðinn einn „lögmætan” tilgang með framangreindum hætti. Reglur hlutafélagaréttar heimila almennt séð endurkaup að uppfylltum tilteknum hlutlægum skilyrðum og byggja á sjónarmiðum um frelsi félaga til þess að kaupa eigin hlutabréf í hvaða tilgangi sem þau telja viðeigandi hverju sinni, án þess að greinarmunur sé gerður á sérstökum „lögmætum” tilgangi og öðrum tilgangi.
Þegar rökin að baki reglum um bann við innherjasvikum og markaðsmisnotkun eru höfð í huga fæst heldur ekki séð að það skipti nokkru máli hvort endurkaup hafi einn sérstakan tilgang umfram annan.
Annars vegar koma reglur sem gilda um meðferð innherjaupplýsinga í veg fyrir að félag hefji endurkaupaáætlun þegar það býr yfir innherjaupplýsingum, öðrum en tengjast áætluninni sem slíkri, og skylda jafnframt félag til þess að upplýsa reglulega um framgang áætlunarinnar. Í því sambandi ætti ekki að skipta máli hvað félagið hyggst gera við hlutabréfin að endurkaupum loknum.
Þótt endurkaup hafi annan tilgang en vísað er til í MAR – og fylgi þannig ekki ströngum skilyrðum MAR um gagnsæi og framkvæmd endurkaupa – þýðir það ekki að þeir sem standa að slíkum endurkaupum séu sjálfkrafa sekir um innherjasvik og markaðsmisnotkun.
Hins vegar girða þær reglur sem gilda samkvæmt MAR um endurkaupaáætlanir, svo sem um gagnsæi viðskipta og takmarkanir á magni og verði viðskipta, fyrir það að félag gefi markaðinum misvísandi skilaboð um eftirspurn eftir hlutabréfum og hafi þannig áhrif á verð þeirra. Þessi áhætta á markaðsmisnotkun varðar eingöngu þá skilmála sem félag setur endurkaupunum – ekki tilganginn sem býr að baki þeim.
Gildandi reglur MAR um meðferð innherjaupplýsinga og framkvæmd endurkaupa eru þannig fullnægjandi, einar og sér, til þess að draga úr hættunni á markaðssvikum – án þess að tilgangur félags með endurkaupunum skipti þar nokkru máli.
Eftirsótt verndarsvæði
Þótt endurkaup hafi annan tilgang en vísað er til í MAR – og fylgi þannig ekki ströngum skilyrðum MAR um gagnsæi og framkvæmd endurkaupa – þýðir það ekki að þeir sem standa að slíkum endurkaupum séu sjálfkrafa sekir um innherjasvik og markaðsmisnotkun. Ávallt þarf að sýna fram á að skilyrði slíkrar háttsemi séu uppfyllt og staðreyndin er sú að slík skilyrði geta tæpast verið fyrir hendi á meðan endurkaup fara fram á grundvelli gagnsærrar endurkaupaáætlunar, jafnvel þótt tilgangur endurkaupanna sé annar en kveðið er á um í MAR.
Það er aftur á móti ekki að ástæðulausu að félög sækist eftir því að njóta verndar frá banni MAR við innherjasvikum og markaðsmisnotkun. Slík vernd veitir félögum aukinn fyrirsjáanleika og öryggi, sér í lagi við kaup á eigin hlutabréfum – viðskipti sem geta stundum gefið markaðinum misvísandi skilaboð. Með því að takmarka þetta „verndarsvæði“ við endurkaup sem hafa einn tilgang umfram annan er félögum settar óþarflega þröngar skorður að þessu leyti, án nokkurrar haldbærrar ástæðu.
Höfundur er fulltrúi á LEX.