Skoðun

Er allt í bak­lás? Þú getur meira en þú heldur...

Guðlaugur Birgisson skrifar

Á hverju ári er haldinn alþjóðlegur dagur sjúkraþjálfunar. Nú ber hann upp á daginn í dag, sunnudaginn 8.september. Heimssamband sjúkraþjálfara WCPT stendur að deginum og notum við sjúkraþjálfarar daginn til þess að vekja athygli á okkar störfum sem spanna vítt svið. Í ár er dagurinn tileinkaður umfjöllun um mjóbaksverki og öflugt starf sjúkraþjálfara hvað varðar forvarnir, greiningu og meðferð þeirra.

Verkir í mjóbaki eru helsta ástæða færniskerðingar í heiminum í dag.

Árið 2020 upplifðu 619 milljón manns í heiminum mjóbaksverki eða 1 af hverjum 13jarðarbúum. Þetta er 60% aukning frá árinu 1990. Áætlað er að 843 milljónir alls mannkyns muni glíma við mjóbaksverki árið 2050.

Talið er að 90% allra tilfella séu óskilgreind, þ.e. ekki hægt að rekja beint til skaða á tilteknum taugum, liðum, vöðvum, liðböndum eða alvarlegra undirliggjandi sjúkdóma. Hvað varðar lengd einkenna þá eru góðu fréttirnar þær að minnihluti þeirra sem upplifir verki í mjóbaki þróar með sér langvarandi einkenni (hefur verki í meira en 3 mánuði). Langvarandi verkjaupplifun er oft á tíðum samspil líkamlegs og andlegs álags í daglegu lífi sem og fyrri áfallasögu.

Sjúkraþjálfarar eru í lykilhlutverki þegar kemur að forvörnum, greiningu og meðferð mjóbaksverkja. Með sértækum æfingum, fræðslu og ráðleggingum er varða líkamlegt álag og lífsstíl má fyrirbyggja mjóbakseinkenni og ennfremur auka lífsgæði þeirra sem glíma við langtíma verki. Í gegnum sérhæfða meðferð við langvinnum mjóbaksverjum gera sjúkraþjálfarar fólki kleift að vera virkara í daglegu lífi og öðlast betri stjórn á langvarandi einkennum.

Heimssamband sjúkraþjálfara lét fyrir stuttu útbúa veggspjöld og upplýsingablöð með ýmsum fróðleik um mjóbaksverki í tilefni alþjóðlegs dags sjúkraþjálfara. Félag sjúkraþjálfara hefur nú látið þýða þessa útgáfu og má sjá afraksturinn á slóðinni: https://www.sjukrathjalfun.is/um-felagid/utgafa/frettir/althjodadagur-sjukrathjalfunar-er-8.-september. Endilega kíkið á það.

Í lokin langar mig að óska öllum sjúkraþjálfurum á Íslandi til hamingju með alþjóðlega daginn í dag!

Höfundur er sjúkraþjálfari og lýðheilsufræðingur á Reykjalundi.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×