Fótbolti

Arsenal náði naum­lega að slá Selmu út

Sindri Sverrisson skrifar
Selma Sól Magnúsdóttir fékk gult spjald fyrir brot á Alessiu Russo í leiknum í kvöld.
Selma Sól Magnúsdóttir fékk gult spjald fyrir brot á Alessiu Russo í leiknum í kvöld. Getty/David Price

Arsenal er komið áfram í seinni umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta kvenna en Selma Sól Magnúsdóttir og stöllur hennar í Rosenborg eru úr leik.

Rosenborg hafði slegið út Atlético Madrid í undanúrslitum, eftir vítaspyrnukeppni þar sem markvörðurinn Rugile Rulyte fékk aðeins á sig tvö mörk.

Rulyte var hins vegar skúrkur í kvöld því Arsenal komst yfir á 19. mínútu eftir slæm mistök markvarðarins. Hún ætlaði að kýla boltann í burtu eftir fyrirgjöf en mistókst það og í staðinn skoraði Frida Maanum, sem er einmitt frá Noregi, dýrmætt mark.

Vildu fá víti dæmt á Selmu

Selma var að vanda í byrjunarliði Rosenborgar og lét til sín taka í baráttunni á miðjunni. Hún var fyrst til að fá gult spjald, snemma í seinni hálfleik, eftir að hafa togað Alessiu Russo niður.

Arsenal-menn vildu reyndar fá vítaspyrnu skömmu síðar, þegar þeir töldu að Selma hefði brotið á Leah Williamson, en ekkert var dæmt. „Þú veist ekkert hvað þú ert að gera,“ kölluðu stuðningsmenn að dómaranum og Williamson var steinhissa.

Rosenborg gat hins vegar lítið komist fram á við í leiknum og Arsenal var nær því að skora annað mark, þegar Russo átti skot í þverslána á 72. mínútu. Það var þriðja sláarskot Arsenal í leiknum.

Leiknum lauk svo með 1-0 sigri Arsenal sem þar með fer í umspil um sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Rosenborg er hins vegar, líkt og Breiðablik og Valur fyrr í dag, úr leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×