Skoðun

Grafið undan trú­verðug­leika á­kæru­valdsins

Róbert Spanó skrifar

Mál vararíkissaksóknara hefur mikið verið til umræðu að undanförnu. Í framhaldi af beiðni ríkissaksóknara til dómsmálaráðherra um að honum yrði veitt lausn um stundarsakir hefur ráðherra tekið þá ákvörðun hafna beiðninni. Samt hefur ráðherra í meginatriðum fallist á allar efnislegar röksemdir ríkissaksóknara.

Í ákvörðun hennar er skýrt kveðið að orði og sagt að „ummæli vararíkissaksóknara hafi ekki aðeins verið óviðeigandi og í ósamræmi við stöðu hans sem embættismanns, heldur hafi þau einnig verið til þess fallin að draga úr og grafa undan trúverðugleika embættis ríkissaksóknara og ákæruvaldsins í heild”.

Hvað sem þessu líður féllst ráðherra ekki á beiðni ríkissaksóknara með þeim rökum að „tjáning vararíkissaksóknara [hafi verið] sett fram við sérstakar aðstæður, það er í umræðu um aðila sem hótaði vararíkissaksóknara og fjölskyldu hans ofbeldi og hafði af þeirri ástæðu hlotið dóm. Sú staða [hafi haft] áhrif á mat á svigrúmi vararíkissaksóknara til tjáningar í þessu samhengi”. Þá vísar ráðherra og til meðalhófsreglu í þessu samhengi.

Þessi röksemdarfærsla ráðherra fær ekki lagalega staðist.

Mál þetta snýr ekki að persónu vararíkissaksóknara heldur sjálfstæði og hlutleysi ákæruvaldsins í landinu. Fáum ef nokkrum stjórnvöldum er fengið jafn mikið vald og ákærendum. Ákvörðun um saksókn er ríkt inngrip í líf fólks. Eru því gerðar miklar lagakröfur til óhlutdrægni ákærenda og almenns hæfis þeirra, ekki síst æðstu embættismanna, ríkissaksóknara og vararíkissaksóknara. Um þá gilda að jafnaði sömu kröfur og gerðar eru til dómara og tjáningarfrelsi þeirra settar ríkari skorður en almennt eiga við um opinbera starfsmenn.

Af ákvörðun dómsmálaráðherra má ráða að hún er þeirrar skoðunar að vararíkissóknari hafi með ummælum sínum dregið úr og grafið undan trúverðugleika ákæruvaldsins í landinu. Verður þessi afstaða vart skilin með öðrum hætti en svo að vararíkissaksóknari hafi með ummælum sínum „sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta”, en það er almennt hæfisskilyrði samkvæmt lögum um dómstóla sem vararíkissaksóknari þarf að uppfylla. 

Erfitt er að álykta á annan veg en að í þessum orðum felist í raun afstaða um að vararíkissaksóknari fullnægi ekki lengur almennum hæfisskilyrðum til að sinna starfanum. 

Af þeirri ástæðu bar ráðherra að leysa vararíkisaksóknara úr embætti um stundarsakir eins og ákvæði starfsmannalaga gera ráð fyrir. Með því hefði ráðherra, sem bar að taka þessa ákvörðun sem stjórnvaldshafa, en ekki stjórnmálamanni, réttilega staðið vörð um þá ríku almannahagsmuni sem liggja til grundvallar sjálfstæðu og trúverðugu ákæruvaldi í landinu.

Sú röksemd að meta verði tjáningu vararíkisaksóknara í ljósi sérstakra aðstæða og gæta verði meðalhófs sökum þess að hann hafi sætt líflátshótunum er ekki lagalega tæk. Hún getur ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að hafna beiðni ríkissaksóknara. Þeir sem fara með opinbert vald, og þá sérstaklega embættismenn og aðrir starfsmenn í refsivörslukerfinu, sæta iðulega slíkum hótunum, eins og forstjóri fangelsismálastofnunar hefur nýlega bent á. Slíkar aðstæður geta því með engu móti talist „sérstakar“ eða réttlætt að æðstu handhafar ákæruvalds tjái sig með þeim hætti sem ráðherra sjálfur skilgreinir sem „óviðeigandi og í ósamræmi við stöðu [vararíkissaksóknara] sem embættismanns“. 

Þeir sem velja það að taka að sér opinbert starf í réttarvörslukerfinu, einkum dómarar og handhafar ákæruvalds, samþykkja með því þær byrðar sem fylgja slíkum störfum í þágu hlutleysis og trausts á þeim mikilvægu störfum sem þeim hefur verið falið í þágu almannahagsmuna. Tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu veita því ríkulegar heimildir til að þrengja að tjáningarfrelsi dómara og handhafa ákæruvalds. Það leiðir skýrt af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu.

Ekki leikur vafi á því að núverandi ríkissaksóknari og aðrir ákærendur muni gera sitt besta til að endurheimta traust og að öðru leyti vinna úr þeirri erfiðu stöðu sem upp er komin. Niðurstaða dómsmálaráðherra er engu að síður áfall fyrir ákæruvaldið í landinu og þar með almenning allan sem á það treystir.

Höfundur er lögmaður, lagaprófessor og fyrrum forseti Mannréttindadómstóls Evrópu.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×