Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá myndir frá Gautaborg í Svíþjóð þar sem Heart Aerospace er með höfuðstöðvar sínar.

Prófanir á frumgerðinni eru hafnar, en þó eingöngu á jörðu, og sýndi sænska fyrirtækið tilraun um hvernig gengi að afgreiða flugvélina; að koma farþegum og farangri um borð, og svo út aftur, en einnig hvernig gengi að fullhlaða hana rafmagni í stuttu stoppi.

Fyrsta eintakið er eingöngu rafmagnsflugvél en síðan verður gerð tvinnvél og þannig er henni ætlað að þjóna flugvöllum í allt að 400 kílómetra fjarlægð.
Henni er ætlað að geta notað stuttar flugbrautir og framleiðandinn vonast til að hagkvæmni hennar verði til þess að endurvekja smærri flugvelli sem misst hafa flugsamgöngur.

Hún gæti því verið sniðin fyrir íslenskar aðstæður enda er Icelandair í ráðgjafanefnd um þróun hennar og undirritaði fyrir tveimur árum viljayfirlýsingu um kaup á allt að fimm eintökum.
Fyrsta reynsluflug er áformað næsta vor og er núna stefnt að því að hún hefji farþegaflug árið 2028. Og þeir sem hafa áhyggjur af hávaða frá flugvöllum ættu að gleðjast því það mun heyrast mun minna í þessari en hefðbundnum flugvélum.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: