Sport

Madden bölvunin náði í nýtt fórnar­lamb í NFL deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Christian McCaffrey á fullri ferð með boltann þegar San Francisco 49ers spilaði i síðasta Super Bowl.
Christian McCaffrey á fullri ferð með boltann þegar San Francisco 49ers spilaði i síðasta Super Bowl. Getty/Steph Chambers

Besti hlaupari NFL-deildarinnar missti af fyrstu umferðinni um síðustu helgi og nú er ljóst að hann spilar heldur ekki næstu fjóra leiki síns liðs.

San Francisco 49ers tók nefnilega þá ákvörðun að setja stórstjörnuna Christian McCaffrey á meiðslalistann [Injured reserve]. Það þýðir að hann má ekki spila næstu fjóra leiki liðsins.

McCaffrey er að glíma við erfið kálfa- og hásinarmeiðsli. Það lítur út fyrir að þau meiðsli séu verri en menn óttuðust. Hann fær nú nokkrar vikur til að ná sér góðum.

49ers liðið og allir Fantasy spilararnir sem völdu hann númer eitt eða tvö fyrir tímabilið verða því án hans í næstu leikjum.

Þetta þykir mönnum líka sönnum um það að svokölluð Madden bölvun lifi enn góðu lífi.

Það tengist því að á hverju tímabili er einn stjörnuleikmaður úr NFL deildinni valinn til að vera á forsíðu Madden tölvuleiksins.

Það hefur oftast boðað slæma hluti fyrir viðkomandi leikmann hvort sem það eru meiðsli eða slæmt gengi inn á vellinum tímabilið á eftir.

McCaffrey fékk þann heiður að vera á forsíðunni í ár.

McCaffrey var frábær á síðustu leiktíð þegar San Francisco 49ers fór alla leið í Super Bowl leikinn. Hann var kosinn besti sóknarmaður tímabilsins enda hljóp hann 1459 jarda með boltann og skoraði 21 snertimark.

Tveir leikir verða sýndir beint á Stöð 2 Sport 2 í dag.  Klukkan 16.55 hefst útsending frá leik Minnesota Vikings og San Francisco 49ers og klukkan 20:20 hefst útsending frá leik Kansas City Chiefs og Cincinnati Bengals. 

NFL Red Zone verður síðan á Stöð 2 Sport 3 frá klukkan 17.00 en Scott Hanson sér um sjö klukkustunda útsendingu þar sem skipt á er á milli leikja í NFL-deildinni og öll helstu snertimörk, tilþrif og önnur atvik sýnd um leið og þau gerast.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×