Sport

Gat ekki kastað því liðsfélaginn ældi á boltann

Valur Páll Eiríksson skrifar
Það var ekki séns fyrir Willis að kasta boltanum sem var þakinn í ælu.
Það var ekki séns fyrir Willis að kasta boltanum sem var þakinn í ælu. Stacy Revere/Getty Images

Furðulegt atvik átti sér stað í leik Green Bay Packers og Indianapolis Colts í NFL-deildinni vestanhafs í gær. Magapest sóknarlínumanns fyrrnefnda liðsins hafði áhrif á leikinn.

Josh Myers spilar fyrir miðju í sóknarlínu Green Bay liðsins sem vann 16-10 sigur í gærkvöld. Spennan jókst eftir því sem leið á leikinn þegar gestirnir unnu sig inn í hann og veikindi Myers á mikilvægum tímapunkti hefðu getað reynst dýrkeypt.

Myers var slæmur í maganum í gær, virðist vera.Pedro Vilela/Getty Images

Green Bay var á þriðju tilraun og þurfti að komast 10 stikur fyrir endurnýjun þegar Myers kastaði hressilega upp skömmu áður en hann losaði boltann á leikstjórnandann Malik Willis.

Willis lék í fjarveru aðal leikstjórnanda Packers, Jordan Love, sem var frá vegna meiðsla. Lítil hjálp var í uppkasti liðsfélaga hans í þessari stöðu.

Aldrei lent í þessu áður

Teiknað hafði verið upp kastkerfi til að komast stikurnar 10 en Willis gat ekki kastað boltanum þar sem Myers hafði kastað upp á boltann. Willis hljóp þá með hann og afleiðingarnar að Packers tókst ekki að fá endurnýjun.

„Ég spurði Malik hvers vegna hann kastaði boltanum ekki á þriðju tilrauninni og hann sagði það vegna þess að Josh ældi á boltann. Þetta er í fyrsta skipti sem ég hef heyrt um það,“ sagði Matt Lafleur, þjálfari Packers, um atvikið eftir leik.

„Við þetta má bæta að dómarinn, Shawn Hochuli, kom til mín og sagðist hafa séð leikmanninn æla á boltann. „Eigum við að taka hann út af næst?“ Ég svaraði: „Já, endilega gerið það.“ Því þetta var mikilvæg staða og ég hef aldrei lent í því að einhver æli á boltann,“ bætti Lafleur við.

Packers eru á sigurbraut eftir að hafa tapað naumlega fyrir Philadelphia Eagles í fyrsta leik. Colts liðið er án sigurs eftir fyrstu tvo leikina.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×