Fótbolti

Segir að Van Persie sé eins og yngri flokka þjálfari

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Robin van Persie tók við Heerenveen í sumar. Liðið er í 13. sæti hollensku úrvalsdeildarinnar með fjögur stig eftir fjóra leiki.
Robin van Persie tók við Heerenveen í sumar. Liðið er í 13. sæti hollensku úrvalsdeildarinnar með fjögur stig eftir fjóra leiki. getty/BART STOUTJESDIJK

Robin van Persie fer ekki vel af stað sem þjálfari Heerenveen og var gagnrýndur eftir stórt tap liðsins fyrir AZ Alkmaar um helgina.

Heerenveen steinlá fyrir AZ í 4. umferð hollensku úrvalsdeildarinnar, 9-1. Staðan var 2-1 í hálfleik, AZ í vil, en í seinni hálfleik opnuðust allar flóðgáttir og heimamenn skoruðu sjö mörk gegn engu.

Sparkspekingurinn Kenneth Perez gagnrýndi Van Persie eftir leikinn og sagði hann ekki sannfærandi í nýja hlutverkinu.

„Hann er ekki eins og venjulegur þjálfari. Hann er umdeildur. Stundum er hann eins og yngri flokka þjálfari þar sem úrslitin skipta ekki höfuðmáli. En þetta er atvinnumannabolti og úrslitin skipta máli,“ sagði Perez.

„Hann er sannfærður um að ef hann spilar þennan leikstíl með þessa leikmenn muni úrslitin fylgja með. Ég efast um það. Leikstíll hans krefst annars konar leikmanna en hann hefur til umráða.“

Perez vill meina að varnarmenn Heerenveen ráði ekki við að spila jafn framarlega á vellinum og Van Persie vill að þeir geri og þeir séu ekki nógu vel spilandi.

Heerenveen fær tækifæri til að rétta úr kútnum þegar liðið sækir Twente heim í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×