Erlent

169 börn sem fæddust eftir 7. októ­ber á lista yfir látnu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Látnir fluttir á Nasser sjúkrahúsið í Khan Younis.
Látnir fluttir á Nasser sjúkrahúsið í Khan Younis. Getty/Anadolu/Doaa Albaz

Heilbrigðisráðuneyti Gasa hefur gefið út skjal þar sem borin eru kennsl á 34.344 einstaklinga sem hafa látist í árásum Ísraelsmanna. Um er að ræða 80 prósent þeirra sem sagðir eru hafa fallið frá því að átök brutust út í kjölfar árása Hamas á byggðir í Ísrael 7. október síðastliðinn.

Skjalið telur 649 blaðsíður en um er að ræða lista með nöfnum látnu, kyni, aldri og auðkennisnúmerum. Á listanum eru meðal annars 169 börn sem fæddust eftir 7. október og maður fæddur 1922.

Þeir 7.613 sem hafa verið taldir en eru ekki á listanum eru látnir sem voru fluttir á sjúkrahús eða í líkhús en ekki hefur tekist að bera kennsl á.

Samkvæmt umfjöllun Guardian virðast nöfn barna undir 10 ára aldri telja 100 blaðsíður og þá kemur fyrsti fullorðni einstaklingurinn við sögu á blaðsíðu 215.

Yfirvöld á Gasa segja 41 þúsund hafa látist í árásum Ísraelshers til þessa en embættismenn í Ísrael segja ómögulegt að leggja trúnað á það þar sem tölurnar komi frá Hamas.

Sameinuðu þjóðirnar segja upplýsingar yfirvalda á Gasa um fjölda látinna hins vegar hafa reynst nærri lagi í fyrri átökum.

Ekki hefur verið gefið upp hversu margir látnu eru liðsmenn Hamas en samkvæmt Guardian má útiloka meirihluta hinna 34.344 út frá aldri og kyni.

Á listanum eru 11.355 börn, 6.297 konur og 2.955 einstaklingar 60 ára og eldri.

Ísraelsher segist hafa drepið 17 þúsund bardagamenn en hefur ekki gefið út hversu marga almenna borgara þeir áætla að hafi sömuleiðis verið drepnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×