Twente sló Íslandsmeistara Vals úr leik í fyrri umferð undankeppninnar fyrir riðlakeppni Meistaradeildarinnar og dróst gegn Osijek frá Króatíu. Fyrri leikur liðanna fór fram í Króatíu í dag þar sem Twente vann góðan 4-1 sigur.
Ella Peddemors kom Twente í forystu snemma leiks en Lorena Balic jafnaði fyrir heimakonur og staðan 1-1 í hálfleik.
Alieke Tuin og Nikeé van Dijk skoruðu sitt hvort markið fyrir Twente á 54. og 70. mínútu og Amanda kom inn á af varamannabekknum strax eftir mark van Dijk.
Hún hafði aðeins verið sex mínútur á vellinum þegar Amanda skoraði fjórða mark Twente til að gera út um leikinn.
Twente fer því með 4-1 forystu til Hollands þar sem síðari leikur liðanna fer fram á fimmtudaginn í næstu viku. Hollenska liðið er aðeins 90 mínútum frá sæti í riðlakeppninni í vetur.