Enski boltinn

Ó­viss um að hann sé vel­kominn á Oasis tón­leikana

Valur Páll Eiríksson skrifar
Trent Alexander-Arnold er ekki viss um að hann geti látið sjá sig á tónleikum Oasis í sumar.
Trent Alexander-Arnold er ekki viss um að hann geti látið sjá sig á tónleikum Oasis í sumar. Julian Finney/Getty Images

Trent Alexander-Arnold, leikmaður Liverpool á Englandi, er óviss um hvort hann láti sjá sig á tónleikum bresku hljómsveitarinnar Oasis í sumar. Sveitungi hans frá Liverpool, Jamie Carragher, býður honum þó með sér á leikana.

Alexander-Arnold var í viðtali í umfjöllun CBS um Meistaradeild Evrópu í gær eftir 3-1 sigur Liverpool á AC Milan á San Siro.

Þar var hann spurður hvort hann hefði tryggt sér miða á tónleika Oasis í sumar en sveitin kemur saman í fyrsta skipti í 15 ár. Sveitin var lögð af árið 2009 eftir að kastaðist í kekki milli bræðranna Liams og Noels Gallagher sem mynda sveitina.

Mikil spenna er fyrir tónleikaröð bræðranna en allir miðar hafa selst upp á mettíma.

„Nei, ég er ekki kominn með miða.“

„Mér líkar vel við Oasis, ég fýla lögin þeirra. En ég er ekki viss um að ég sé velkominn á tónleikana þeirra,“ sagði Alexander-Arnold í samtali við þau Kate Abdo, Thierry Henry, Micah Richards og Jamie Carragher í Meistaradeildarumfjöllun CBS í gærkvöld.

Trent á þá að líkindum við um það að hann komi frá Liverpool-borg og sé ekki vinsæll í Manchester-borg. Bræðurnir Liam og Noel koma frá Manchester og eru miklir stuðningsmenn Manchester City sem hefur háð marga baráttuna við lið Liverpool undanfarin ár.

„Ég er ekki viss um að þú sért velkominn heldur,“ sagði Alexander-Arnold við sveitung sinn Carragher, sem einnig kemur frá Liverpool.

„Nei, ekki séns,“ svaraði Carragher. „En ég er búinn að bóka svítu á Wembley-tónleikana. Þú ert velkominn með,“ bætti hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×