Íslenski boltinn

Kefla­vík í góðri stöðu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Keflavík vann öruggan sigur í Breiðholti.
Keflavík vann öruggan sigur í Breiðholti. Vísir/Hulda Margrét

Keflavík er í góðri stöðu eftir fyrri leik sinn gegn ÍR í umspili Lengjudeildar karla í knattspyrnu um sæti í Bestu deild karla á næstu leiktíð.

Eftir að hefðbundinni deildarkeppni Lengjudeildarinnar var lokið stóð ÍBV sem sigurvegari. Þar fyrir neðan voru Keflavík, Fjölnir, Afturelding og ÍR. Mætast þau í krossspili og því tók ÍR (5. sæti) á móti Keflavík (2. sæti) í kvöld.

Leikurinn var í raun aldrei spennandi þar sem gestirnir úr Keflavík skoruðu þrjú mörk á fyrsta hálftíma leiksins. Kári Sigfússon kom þeim yfir, Ásgeir Helgi Orrason tvöfaldaði forystuna og Michael Mladen kom Keflavík 3-0 yfir áður en Hákon Dagur Matthíasson minnkaði muninn fyrir lok fyrri hálfleiks.

Kári var aftur á ferðinni á 74. mínútu og staðan orðin 4-1 Keflavík í vil. Á 82. mínútu fékk ÍR ákveðna líflínu þegar Axel Ingi Jóhannesson braut af sér innan vítateigs og fékk í kjölfarið rautt spjald.

Hákon Dagur fór á punktinn fyrir ÍR en brenndi af vítaspyrnunni og lokatölur í Breiðholti 1-4. ÍR þarf því kraftaverk í Keflavík til að komast í leikinn sem sker úr um hvaða lið fylgir ÍBV upp í Bestu deildina.

Upplýsingar um leikinn fengnar af Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×