Erlent

Títan bilaði og lenti í á­rekstri nokkrum dögum fyrir hinstu förina

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Talið er að þeir fimm sem voru um borð hafi látist samstundis, þegar skrokkur Títan féll saman.
Talið er að þeir fimm sem voru um borð hafi látist samstundis, þegar skrokkur Títan féll saman. AP/Strandgæsla Bandaríkjanna

Kafbáturinn Títan, sem fórst í leiðangri að flaki Titanic í fyrra, bilaði nokkrum dögum fyrir hinstu förina. Fimm létust í slysinu, þeirra á meðal Stockton Rush, forstjóri fyrirtækisins sem átti kafbátinn.

Steven Ross, fyrrverandi framkvæmdastjóri vísinda hjá fyrirtækinu OceanGate, sagði við opnar yfirheyrslur hjá Strandgæslu Bandaríkjanna í gær að umrætt atvik, þegar Títan bilaði, hefði valdið því að farþegar hans ultu til í kafbátnum.

Einn hefði endað á hvolfi og aðrir þurft að halda sér fast.

Ross sagði bilunina einnig hafa valdið árekstri en vissi ekki til þess hvort athugað hefði verið með skemmdir á skrokknum eftir á. Það hefði tekið meira en klukkustund að ná kafbátnum upp úr sjónum í kjölfar bilunarinnar.

Banaslysið varð til þess að spurningar vöknuðu um öryggi Títans, hönnun og efni.

Renata Rojas, sem var um borð í bátnum sem fylgir Títan, sagði í gær að áhöfnin hefði beðið í klukkustund eftir að samband rofnaði við kafbátinn þar sem gert væri ráð fyrir að menn tækju sér meiri tíma en fyrirfram var áætlað til að skoða flak Titanic.

Þegar ekkert heyrðist hafi síðan verið ákveðið að hafa samband við Strandgæsluna.

Ýmsar áætlanir voru til staðar ef Títan festist á sjávarbotninum en ekki hafði verið gert ráð fyrir því að sú staða kæmi upp að skrokkurinn gæfi sig. Þá lýsti hún atviki árið 2021, þegar hluti kafbátsins rifnaði af þegar verið var að hífa hann um borð í skipið.

Rojas sagðist þó aldrei hafa upplifað sig óörugga um borð í Títan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×