Sport

Ó­trú­leg bæting í Bak­garðs­hlaupinu: „Allt hægt ef viljinn er fyrir hendi“

Aron Guðmundsson skrifar
Þórdís náði frábærum árangri í Bakgarðshlaupi Náttúruhlaupa um nýliðna helgi
Þórdís náði frábærum árangri í Bakgarðshlaupi Náttúruhlaupa um nýliðna helgi Vísir/Sigurjón

Þór­dís Ólöf Jóns­dóttir ætlaði sér að hlaupa þangað til hún gæti ekki meira í Bak­garðs­hlaupinu sem fór fram um ný­liðna helgi. Það varð til þess að hún stór­bætti sinn besta árangur í hlaupinu. 

Þór­dís endaði í öðru sæti í Bak­garðs­hlaupinu sem fór fram í Heið­mörk um ný­liðna helgi. Keppnin stóð yfir í rúman einn og hálfan sólar­hring og var það Mar­lena Radziszewska sem bar sigur úr býtum með því að klára 38 hringi sem hver er 6,7 kíló­metra langur, það gera um 254,6 kíló­metra.

Sjálf kláraði Þór­dís 37 hringi, rétt tæpa 248 kíló­metra en lengi vel voru þær Mar­lena bara tvær eftir í hlaupinu. Best hafði Þór­dís náð að hlaupa fimm­tán hringi í bak­garðs­hlaupi fyrir keppni helgarinnar. Þeim árangri náði hún í maí fyrr á árinu og því er hún að bæta sig um rúma 147 kíló­metra milli hlaupa.

„Ég fór fimm­tán hringi í maí en hefði geta haldið á­fram þá. Ég var hins vegar búin að lofa sjálfri mér því að hætta því ég var á leiðinni í próf daginn eftir. Ég sá svo mikið eftir því þá. Að hafa hætt. Mark­miðið var því alltaf að fara aftur í Bak­garðs­hlaupið og hætta ekki að hlaupa fyrr en ég bara gjör­sam­lega gæti ekki meira. Það gekk eftir.“

Þannig að þú vissir komandi inn í þetta hlaup að þú ættir kannski tölu­vert mikið inni?

„Já alla­vegana eitt­hvað. Kannski ekki alveg þrjá­tíu og sjö hringi. En alveg eitt­hvað. “

„Ég hélt svona í besta falli að ég myndi komast þrjá­tíu hringi. Það væri þá á mjög góðum degi í mjög góðu dags­formi. Svo ein­hvern veginn getur maður meira en maður heldur. Ég held það sé alltaf þannig.“

Tekur einn hring í einu

And­legi styrkurinn skiptir ekki minna máli en sá líkam­legi þegar kemur að Bak­garðs­hlaupum og þar er Þór­dís sterk og býr yfir þeim styrk að geta beint ein­beitingunni í réttan far­veg þegar á brattan sækir.

„Nei maður verður bara að taka þetta einn hring í einu. Það er rosa mis­jafnt hvernig manni líður. Þetta er þó oftast þannig að ef maður líður illa í einum þessum hring þá líður það hjá eftir svona tvo hringi. Maður þarf bara að hafa ein­beitinguna í lagi og hugsa um eitt­hvað annað eða beina ein­beitingunni í ein­hvern annan far­veg en að þjáningunni.“

Og fjöl­mennt stuðning­steymi fylgdi Þór­dísi og átti stóran þátt í því að henni tækist að bæta sig svona svaka­lega.

„Ég hefði aldrei getað þetta án þeirra og er ævin­lega þakk­lát fyrir þau öll sem og öll þau sem hafa sent mér skila­boð, horft og fylgst með. Sér­stak­lega fjöl­skyldu og vini sem voru æðis­leg fyrir mig á hliðar­línunni.“

Byrjaði að hlaupa fyrir fimm árum

Maður gert sér það í hugar­lund að dagurinn eftir Bak­garðs­hlaup sé erfiður fyrir hlaupara. Sjálf er Þór­dís á réttri leið og líður betur en hún bjóst við. Hún horfir fram vegin og langar að reyna enn meira fyrir sér í Bak­garðs­hlaupum. Sjá hversu langt hún kemst.

Sjálf byrjaði hún að hlaupa fyrir al­vöru árið 2019 er hún hljóp sitt fyrsta hálf­mara­þon. Eftir það var ekki aftur snúið.

„Ég fór hálf­mara­þon árið 2019. Hafandi ekkert hlaupið fyrir það. Svo bara á­gerist þetta. Maður fær meiri og meiri á­huga á því að hlaupa. Maður vill alltaf meira, gera stærri hluti. Svo er maður komin á þennan stað.

Þú hefur fengið hlaupa­bakteríuna þarna?

Já ég held að það sé allt hægt ef viljinn er fyrir hendi.“

Í gær var blíð­skapar­veður í Reykja­vík, stillt og gott. Full­komið úti­vistar­veður.

Það hefur ekkert kitlað, svona degi eftir Bak­garðs­hlaupið að fara út að hlaupa?

„Mér hefur verið ráð­lagt að hvíla. En það er alveg full­komið hlaupa­veður. Maður er að­eins að missa af.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×