Erlent

„Virkið“ Vuhledar að falli komið

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskir hermenn hafa varið Vuhledar með kjafti og klóm en íbúar eru svo gott sem allir fanrir þaðan.
Úkraínskir hermenn hafa varið Vuhledar með kjafti og klóm en íbúar eru svo gott sem allir fanrir þaðan. Getty/Wolfgang Schwan

Hersveitir Rússa eru komnar langleiðina með að ná tökum á bænum Vuhledar í Dónetsk-héraði í Úkraínu. Rússar hafa lagt mikið púður í sóknina að bænum á undanförnum dögum og hafa verjendur hans þurft að hörfa undan þessum áhlaupum.

Útlit er fyrir að ákvörðun hafi verið tekin um að horfa frá Vuhledar og er jafnvel mögulegt að þeir hafi þegar yfirgefið bæinn, en óljóst er hve mikið Rússar munu græða á því og hefur hann svo gott sem verið lagður alfarið í rúst eftir svo langa og harða bardaga.

Rússar eru sagðir komnir að jaðri bæjarins og hafa þeir verið að gera umfangsmiklar stórskotaliðsárásir á hann, samhliða áhlaupum inn í hann úr minnst tveimur áttum.

Hafa varið Vuhledar frá upphafi

Gangur stríðsins í Úkraínu hefur á tímum sveiflast Úkraínumönnum í vil en að mestu hafa Rússar sótt hægt og rólega fram í austri frá því innrásin hófst í febrúar 2022.

Það hefur þó ekki átt við bæinn Vuhledar, þar sem Rússum hefur lítið sem ekkert gengið þrátt fyrir ítrekaðar umfangsmiklar árásir á bæinn. Þessar árásir hafa oft reynst Rússum mjög kostnaðarsamar.

Sjá einnig: Segja Rússa hafa misst heilt stórfylki við Vuhledar

Í sumar sögðust verjendur Vuhledar hafa grandað sextán skriðdrekum, 34 bryndrekum og nítján mótorhjólum í einni árás Rússa.

Um fjórtán þúsund manns bjuggu í Vuhledar, þar sem undirstöðuatvinnuvegur var námuvinnsla, fyrir innrás Rússa. Fáir ef einhverjir eru þar eftir , fyrir utan hermenn 72. vélvædda stórfylkisins sem hafa varið bæinn frá því Rússar hófu áhlaupið gegn honum árið 2022.

Aðrar hersveitir hafa einnig komið að vörnum bæjarins í gegnum tíðina.

Fall Vuhledar gæti ógnað stöðu bæjarins Pokrovsk, sem er norður af Vuhledar og er mikilvæg miðstöð flutninga.

Svona leit Vuhledar út í mars en síðan þá hafa mjög harðir bardagar átt sér stað þá og þá sérstaklega á undanförnum dögum.Getty/Libkos

Í frétt Forbes segir að skammt norður af Vuhledar sé annar bær sem Úkraínumenn gætu gert að „virki“, eins og Vuhledar hefur verið kallað, og þannig hægt áfram á sókn Rússa að Pokrovsk.

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur lýst því yfir að helsta markmið Rússa sé að ná tökum á Donbas-svæðinu svokallaða, sem myndað er af Dónetsk og Lúhans-héruðum. Nú þegar stjórna Rússar um áttatíu prósentum af svæðinu, samkvæmt frétt Reuters.

Svifsprengjur afkastamiklar

Fréttaveitan hefur eftir Andríj Kóvalenkó, einum af talsmönnum þjóðaröryggisráðs Úkraínu, að svokallaðar svifsprengjur hafi reynst Rússum vel í Vuhledar. Það hafi verið tiltölulega auðvelt að verja borgina gegn áhlaupum Rússa þar sem hún stendur hærra en nærliggjandi umhverfi hennar.

Hins vegar hafi Rússar notað svifsprengjur til að gera Úkraínumönnum erfiðara að verja borgina.

Svifsprengjur eru oftar en ekki gamlar og stórar hefðbundnar sprengjur sem Rússar setja vængi á og staðsetningarbúnað. Sprengjunum er svo varpað úr herþotum úr mikilli hæð og geta þær svifið allt að hundrað kílómetra eða lengra áður en þær lenda á skotmarki sínu, oft með mikilli nákvæmni.

Þannig hafa Rússar getað fellt heilu fjölbýlishúsin í einni árás, sem hefði getað tekið marga taka eða vikur með hefðbundnu stórskotaliði.

Sjá einnig: Senda svifsprengjur fyrir F-16

Í frétt Kyiv Independent segir að fall Vuhledar gæti haft slæm áhrif á baráttuanda Úkraínumanna, sem hefur þegar beðið nokkra hnekki. Sókn Úkraínumanna í Kúrsk-hérað í Rússlandi er þó sagt hafa bætt baráttuanda hermanna á nýjan leik.

Nokkrir mikilvægir vegir liggi þó í gegnum bæinn, sem gætu gert Rússum auðveldar að sækja lengra fram í Dónetsk.


Tengdar fréttir

Hútar vilja háþróaðar stýriflaugar frá Rússum

Erindrekar frá Íran hafa komið að viðræðum milli yfirvalda í Rússlandi og Húta í Jemen, sem vilja fá háþróaðar eldflaugar frá Rússum til að sökkva skipum á Rauðahafi. Hútar hafa gert ítrekaðar árásir á skip á svæðinu og óttast er að umræddar eldflaugar gætu aukið getu þeirra til muna.

Selenskíj heim­sótti lykil­ríki og þakkaði fyrir vopnin

Volodýmýr Selenskíj, forseti Úkraínu, þakkaði starfsmönnum vopnaverksmiðju í Pennsylvaníu fyrir skotfæri sem þeir framleiða fyrir Úkraínuher í heimsókn í gær. Pennsylvanía gæti ráðið úrslitum um hver verður næsti forseti Bandaríkjanna.

Varpa sprengjum á fjölbýlishús í Karkív

Að minnsta kosti 21 er særður eftir að sprengjum var varpað á fjölbýlishús í Karkív í Úkraínu í nótt. Þetta var aðra nóttina í röð sem Rússar varpa sprengjum á fjölbýlishús í borginni, sem hefur lengi orðið fyrir sambærilegum árásum.

Önnur vopnageymsla í ljósum logum í Rússlandi

Önnur stór vopnageymsla í Rússlandi stendur í ljósum logum eftir árás Úkraínumanna í nótt. Stórar sprengingar urðu í vopnageymslunni í nótt og hafa fleiri sést í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×