Fótbolti

Neyddir í eina stystu rútu­ferð sögunnar

Sindri Sverrisson skrifar
Leikmenn Bodö/Glimt þurftu að ferðast með rútu í innan við eina mínútu og fögnuðu svo flottum sigri.
Leikmenn Bodö/Glimt þurftu að ferðast með rútu í innan við eina mínútu og fögnuðu svo flottum sigri. Samsett/Getty

Leikmenn Bodö/Glimt neyddust til að ferðast með rútu í heimaleik sinn við Porto í Evrópudeildinni í fótbolta í gær. Ferðalagið tók eina mínútu.

Eins og Íslendingar ættu að þekkja gerir UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, ýmsar kröfur varðandi umgjörð leikja í Evrópukeppnum. Í Evrópudeildinni er ein af þeim sú að leikmenn mæti í einum hópi saman á leikstað.

Þess vegna söfnuðust leikmenn Bodö/Glimt, sumir í bíl og aðrir fótgangandi, saman fyrir utan hús fylkisstjórans í Norðurlandi, aðeins 220 metrum frá Aspmyra-leikvanginum sem þeir spila heimaleiki sína á.

Svolítið hallærislegt í Noregi

„Þetta var auðvitað mjög kómískt,“ segir Freddy Thoresen, blaðamaður Avisa Nordland. „Svona gera þeir þetta úti í hinum stóra heimi en hér í Noregi verður þetta svolítið hallærislegt.“

Margir af leikmönnum Bodö/Glimt hefðu sem sagt alveg eins getað labbað á völlinn, eins og þeir eru vanir, en það kom ekki til greina að þessu sinni.

„UEFA vill að við komum saman. Þess vegna var þetta svona,“ segir Truls Bjerke, liðsstjóri Bodö/Glimt, samkvæmt frétt NRK.

Danskur Valsari kom liðinu yfir

Rútuferðin virðist hafa farið vel í flesta leikmenn Bodö/Glimt sem unnu frábæran 3-2 sigur á portúgalska stórliðinu, þrátt fyrir að vera manni færri frá 51. mínútu, þegar þeir voru 2-1 yfir.

Daninn Kasper Högh, sem lék með Val um skamman tíma árið 2020, skoraði fyrsta mark Bodö, eftir að Porto hafði komist yfir, og norski landsliðsmaðurinn Jens Petter Hauge skoraði tvö.

Bodö/Glimt hefur því unnið 25 af 31 heimaleik sínum í Evrópukeppnum síðustu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×