Körfubolti

Helena verður á skjánum í vetur

Sindri Sverrisson skrifar
Helena Sverrisdóttir mun hafa helling fram að færa í Bónus Körfuboltakvöldi.
Helena Sverrisdóttir mun hafa helling fram að færa í Bónus Körfuboltakvöldi. vísir/Sigurjón

Sjónvarpsþættinum Bónus Körfuboltakvöldi hefur borist afar mikill liðsstyrkur fyrir nýtt tímabil sem hefst með upphitunarþætti á Stöð 2 Sport annað kvöld.

Helena Sverrisdóttir er nýjasti liðsmaður þáttarins og hún verður með í allan vetur þegar leikirnir og allt það helsta varðandi Bónus-deild kvenna verður krufið til mergjar.

Helenu þarf vart að kynna enda var hún til að mynda valin körfuboltakona ársins á Íslandi ellefu ár í röð fram til ársins 2015, og svo í tólfta sinn árið 2019, eða sem sagt langoftast íslenskra kvenna.

Í nóvember á síðasta ári varð hún leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi, þegar hún lék sinn 80. landsleik, meira en tuttugu árum eftir að hafa fyrst klæðst íslensku landsliðstreyjunni, og hún bætti við 81. landsleiknum áður en hún lagði svo skóna á hilluna.

Helena lék í bandaríska háskólaboltanum með TCU og sem atvinnumaður í Ungverjalandi, Póllandi og Slóvakíu, en langmest með Haukum hér heima og einnig með Val, og vann mikinn fjölda titla á löngum ferli.

Helena ætti því að hafa ýmsu að miðla og sterkar skoðanir á því sem gerist í Bónus-deildinni í vetur en ásamt henni verða sem fyrr þær Bryndís Guðmundsdóttir, Hallveig Jónsdóttir, Berglind Gunnarsdóttir, Ólöf Helga Pálsdóttir, Ingibjörg Jakobsdóttir og Pálína Gunnlaugsdóttir sérfræðingar Körfuboltakvölds. Hörður Unnsteinsson stýrir þættinum áfram.

Upphitunarþáttur Bónus Körfuboltakvölds kvenna hefst klukkan 20 á morgun, á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir

Helena leggur skóna á hilluna

Helena Sverrisdóttir sem margir telja bestu körfuknattleikskonu Íslands fyrr og síðar hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Hún greinir frá þessu á Facebooksíðu sinni nú í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×