Andri Lucas lék allan leikinn sem fremsti maður Gent en mark liðsins kom ekki fyrr en á áttundu mínútu uppbótartíma. Aðeins þremur mínútum áður höfðu heimamenn komist 2-0 yfir og markið því ekkert annað en sárabótamark.
Tapið var heldur óvænt þar sem Gent er í 3. sæti deildarinnar og hefði getað minnkað forskot Genk á toppnum niður í aðeins þrjú stig á meðan Cercle Brugge er í 15, sæti, því næstneðsta, og í bullandi fallbaráttu.
Andri Lucas hefur skorað eitt mark og gefið tvær stoðsendingar í sjö deildarleikjum til þessa á leiktíðinni.