Erlent

Netanjahú sagðist mættur til að svara „lygum“ annarra þjóða

Kjartan Kjartansson skrifar
Netanjahú var mikið niðri fyrir þegar hann ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í dag, 27. september 2024.
Netanjahú var mikið niðri fyrir þegar hann ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í dag, 27. september 2024. AP/Pamela Smith

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sagði allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna að hann hefði aðeins mætt á það til þess að svara lygum og rógburði annarra þjóðarleiðtoga þar. Hann hét því að halda stríðinu gegn Hamas og Hezbollah áfram.

Töluverður órói var í salnum í kringum ávarp Netanjahú og þurfti fundarstjóri að þagga niður í fundarmönnum. Áður en ísraelski forsætisráðherrann tók til máls hafði Robert Golob, forsætisráðherra Slóveníu, krafist þess að hann byndi enda á stríðið. Shehbaz Sharif, forsætisráðherra Pakistans, sakaði Ísraela um kerfisbundna slátrun á Palestínumönnum, beint á undan ávarpi Netanjahú.

„Ég ætlaði mér ekki að koma hingað í ár. Landið mitt berst fyrir lífi sínu í stríði. En eftir að ég heyrði lygarnar og rógburðinn um landið mitt sem margir ræðumenn bera út úr þessu ræðupúlti ákvað ég að koma hingað og leiðrétta þá,“ sagði Netanjahú.

Ekkert í máli Netanjahú benti til þess að það sjái fyrir endann á óöldinni fyrir botni Miðjarðarhafs. Hét hann því að halda herferðinni gegn Hezbollah í Líbanon áfram þar til Ísraelsher nær markmiðum sínum þar. Ísraelsk stjórnvöld gætu ekki liðið daglegar eldflaugaárásir þaðan.

„Ímyndið ykkur bara ef hryðjuverkamenn breyttu El Paso og San Diego í draugabæi. Hversu lengi liði bandaríska ríkisstjórnin það? Samt hefur Ísrael þolað þessa óþolandi stöðu í næstum því ár. Ég er kominn hingað í dag til þess að segja: nú er nóg komið,“ sagði Netanjahú og vísaði til bandarískra landamæraborga.

Um stríðið á Gasaströndinni sagði Netanjahú að hægt væri að ljúka því hvenær sem er. Forsenda þess væri nú sem fyrr að Hamas-samtökin gæfust upp, legðu niður vopn og frelsuðu alla gíslana sem þau tóku í árásinni á Ísrael 7. október.

„En ef þau gera það ekki berjumst við þar til við náum fullnaðarsigri. Fullnaðarsigri. Það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir hann.“


Tengdar fréttir

Sjö hundruð liggja í valnum eftir vikuna

Nærri því sjö hundruð manns hafa fallið í árásum Ísraela á Líbanon í þessari viku, samkvæmt heilbrigðisráðuneyti Líbanon. Ísraelar hafa gert umfangsmiklar árásir á landið og segja þær beinast gegn hryðjuverkasamtökunum Hezbollah, hergögnum þeirra og leiðtogum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×