Innlent

Heimila íshellaferðir á ný

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Mynd úr safni af íshelli.
Mynd úr safni af íshelli. Vísir/Vilhelm

Íshellaferðir í Vatnajökulsþjóðgarði verða leyfðar á ný frá og með morgundeginum að uppfylltum nýjum öryggiskröfum. Hlé var gert á slíkum ferðum eftir að bandarískur ferðamaður lést þegar ísveggur hrundi á hann í slíkri ferð í sumar.

Þetta kemur fram í fundargerð stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs.

„Stjórn samþykkir að heimild til að framlengja samninga nái einnig til íshellaferða á þeim stöðum þar sem áhættumat hefur farið fram og tilgreindir eru í viðauka samnings. Jafnframt verði í skilmálum kveðið á um samstarfshóp ... sem framkvæmi daglegt stöðumat á öryggi ísmyndana,“ segir í fundargerðinni.

Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri Hafnar í Hornafirði, sagði fyrr í mánuðinum að stjórn þjóðgarðsins væri að horfa í samningana sem væru um þessar ferðir og meta með hvaða hætti gæða og öryggiskröfur og álagsstýring verður.

Vinna við þessa samninga hefði verið hafin áður en slysið varð.

Um er að ræða tilraunaverkefni, þangað til 1. nóvember. Stefnt sé að því að undirrita nýja samninga við íshellafyritæki í nóvember.

„Stjórn bendir á að öryggi ferðafólks í seldum ferðum er endanlega á ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækis og leiðsögumanns,“ segir að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×