Í þættinum Flugþjóðin á Stöð 2 fylgjum við áhöfn Atlanta-fraktþotu í hringferð um Afríku. Flogið er með lyf frá Belgíu til Suður-Afríku og með blóm og kryddjurtir frá Kenýa til Belgíu.

Í flugstjórnarklefanum í aðfluginu að Jóhannesarborg eru flugstjórinn Róbert Kristmundsson og flugmaðurinn Þorsteinn Steindórsson. Þriðji flugmaðurnn, Telma Rut Frímannsdóttir, er með um borð til að leysa af hina flugmennina svo þeir geti tekið sér hvíld á löngum flugleggjum.
Sérstakur hleðslustjóri, Bretinn David Lombard, er í áhöfn vélarinnar. Einnig er með í för Ásrún Jóhannesdóttir en hún er yfirmaður í aðgerðarstjórnstöð flugrekstrarsviðs Air Atlanta í Kópavogi.

Á flugvellinum í Jóhannesarborg beið flugvirkinn Björn Þór Bjarnason komu vélarinnar. Hann flýgur svo með henni áfram.
Á meðfylgjandi myndskeiði, sem er ellefu mínútna langt, fylgjumst við með aðflugi og lendingu júmbóþotunnar í Jóhannesarborg sem og affermingu hennar. En einnig því hvernig skyndileg veikindi flugstjóra Air Atlanta, sem átti að taka við þotunni, setja óvænt strik í flugáætlun.
Sjötti þáttur Flugþjóðarinnar næstkomandi mánudagskvöld 7. október nefnist Fólkið í fluginu. Þá hittum við fjölda núverandi og fyrrverandi starfsmanna úr fluggeiranum, rýnum í flugáhugann á Íslandi, spyrjum hversvegna Íslendingar urðu flugþjóð og heyrum mergjaðar flugsögur.
Fimmti þáttur, um Afríkuhring Atlanta-þotunnar, verður endursýndur á Stöð 2 næstkomandi sunnudag, 6. október, klukkan 16:50.
Áskrifendur Stöðvar 2 og Stöðvar 2+ geta séð þættina um Flugþjóðina í streymisveitu Stöðvar 2 hvar og hvenær sem er. Hér má sjá kynningarstiklu fyrir þáttaröðina: