Fótbolti

Sjáðu Luis Enrique húðskamma Mbappé

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luis Enrique ræðir við Kylian Mbappé.
Luis Enrique ræðir við Kylian Mbappé. getty/Jose Breton

Í nýrri heimildamynd um Luis Enrique, knattspyrnustjóra Paris Saint-Germain, sést hann húðskamma stórstjörnuna Kylian Mbappé.

Luis Enrique tók við PSG fyrir síðasta tímabil og stýrði liðinu til sigurs í frönsku úrvalsdeildinni. Þá komst PSG í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.

Í átta liða úrslitunum mætti PSG gamla liðinu hans Enriques, Barcelona. Og fyrir seinni leikinn í einvíginu lét Enrique Mbappé heyra það eins og sést í heimildamyndinni. Hann vildi að framherjinn legði sig meira fram í varnarleiknum.

„Ég las að þú værir hrifinn af Michael Jordan. Hann tók í hnakkadrambið á samherjum sínum og varðist eins og brjálæðingur. Þú verður að gefa tóninn, fyrst sem manneskja og sem leikmaður,“ sagði Enrique við Mbappé.

„Allan leikinn verður þú að pressa [Pau] Cubarsí svo hann komist ekki fram með boltann og pressa [Marc-André] Ter Stegen svo hann gefi boltann fljótt frá sér og vera snöggur að koma þér til baka. Af hverju? Til að vera leiðtogi.“

Enrique vildi sjá Mbappé sýna meiri leiðtogahæfni í leiknum gegn Barcelona.

„Þú ert ótrúlegur. Þú ert heimsklassa leikmaður. Engin spurning. En það er ekki nóg fyrir mig. Sannur leiðtogi er einhver sem hjálpar okkur í öllum þáttum leiksins,“ sagði Enrique.

„Það er það sem ég vil að þú gerir. Að vera leiðtogi hérna. Ég vil að þú getir gengið út um dyrnar án þess að sjá eftir nokkru. Þú verður að vinna. Ekki sækja. Þú ert frábær sóknarmaður. Þú sækir eins og brjálæðingur. En þegar þú getur það ekki verðurðu að vera besti varnarmaður í heimi. Það er leiðtogi. Það er Michael Jordan.“

Orð Enriques virðast hafa haft góð áhrif á Mbappé því hann skoraði tvö mörk í leiknum gegn Barcelona sem PSG vann, 4-1.

Eftir tímabilið gekk Mbappé í raðir Real Madrid eins og við var búist. Hann er markahæsti leikmaður í sögu PSG og varð fimm sinnum franskur meistari með liðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×