Scott McTominay kom Napoli yfir eftir fyrirgjöf frá Lukaku á fyrstu mínútu leiksins gegn Como. Gestirnir jöfnuðu metin á markamínútunni frægu, 43. mínútu leiksins. Gabriel Strefezza með markið og staðan 1-1 í hálfleik.
Snemma í síðari hálfleik fengu heimamenn vítaspyrnu, Lukaku fór á punktinn og kom Napoli 2-1 yfir. David Neres gerði út um leikinn með þriðja marki Napoli þegar fjórar mínútur lifðu leiks, lokatölur 3-1.
Napoli lyfti sér á topp Serie A með sigrinum. Lærisveinar Antonio Conte eru nú með 16 stig að loknum sjö umferðum, fjórum meira en Juventus sem á leik til góða í 2. sætinu.
Mikael Egill hóf leik Verona og Venezia á varamannabekknum. Þar komust gestirnir frá Feneyjum yfir eftir aðeins þriggja mínútna leik.
Heimamenn svöruðu með jöfnunarmarki sex mínútum síðar og sigurinn var svo tryggður þegar aðeins níu mínútur lifðu leiks, lokatölur 2-1.
Verona er með níu stig í 10. sæti en Venezia er með fjögur stig í 19. sæi, einu stigi frá öruggu sæti.