Fótbolti

Amanda fagnaði sigri en Svein­dís þurfti að sætta sig við tap

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Amanda Jacobsen Andradóttir sést hér rauðklædd í baráttunni um boltann.
Amanda Jacobsen Andradóttir sést hér rauðklædd í baráttunni um boltann. ANP via Getty Images

Meistaradeild kvenna í fótbolta hófst með fjórum fjörugum leikjum í dag. Sveindís Jane Jónsdóttir mátti þola tap með liði sínu Wolfsburg en Amanda Andradóttir fagnaði sigri með Twente.

Wolfsburg heimsótti Roma og tapaði 1-0. Manuela Giugliano skoraði eina mark leiksins af vítapunktinum á 14. mínútu. Sveindís Jane byrjaði á vængnum að vana, en var tekin af velli í hálfleik.

Með þeim í A-riðli eru Lyon og Galatasaray. Leik þeirra lauk með öruggum 3-0 sigri Lyon.

Í B-riðli spilaði Amanda Andradóttir 86 mínútur í 2-0 útivallarsigri Twente gegn Celtic. Kayleigh van Dooren kom fyrra markinu að rétt fyrir hálfleik og bætti svo öðru við á 85. mínútu.

Hinum megin í riðlinum mættust Chelsea og Real Madrid. Englandsmeistararnir unnu þar 3-2 sigur. Miðjumaðurinn Sjoeke Nusken skoraði fyrst fyrir Chelsea strax á annarri mínútu. Guro Reiten bætti svo við af vítapunktinum áður en Alba Redondo minnkaði muninn rétt fyrir hálfleik.

Mayra Ramirez setti þriðja markið snemma í seinni hálfleik og það átti eftir að reynast sigurmarkið því Linda Caicedo klóraði í bakkann fyrir Real Madrid undir lok leiks. 3-2 sigur Chelsea staðreynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×