Innlent

Þurfa ekki að greiða vegna við­skipta­vina sem borguðu ekki fyrir bíla­stæði

Samúel Karl Ólason skrifar
Deilurnar snúast um greiðslur upp á rúmlega fimmtíu þúsund krónur vegna notkunar á bílastæðum í bílastæðahúsi Hafnartorgs.
Deilurnar snúast um greiðslur upp á rúmlega fimmtíu þúsund krónur vegna notkunar á bílastæðum í bílastæðahúsi Hafnartorgs. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Landsréttar um að Brimborg ehf. þurfi ekki að greiða Rekstrarfélagi Hafnartorgs rúmar fimmtíu þúsund krónur, auk vaxta frá 31. maí 2019, vegna afnota viðskiptavina bílaleigu Brimborgar á bílastæði við Hafnartorg. Brimborg var sýknað af kröfum Rekstrarfélagsins á öllum dómstigum.

Deila Brimborgar og Rekstrarfélagsins Hafnartorgs snerist um þá leigutaka bílaleigu Brimborgar sem höfðu lagt í stæði í bílastæðahúsi við Hafnartorg í Reykjavík en ekki greitt fyrir afnotin. Rekstrarfélagið rekur bílastæðahúsið.

Forsvarsmenn Rekstrarfélagsins héldu því fram að Brimborg bæri ábyrgð á að greiða leigugjald auk greiðslu á 1.800 króna innheimtukostnaðar. Var það eftir að forsvarsmenn Brimborgar neituðu að afhenda Rekstrarfélaginu upplýsingar um þá leigutaka sem notuðu bílastæðin.

Alls vildi rekstrarfélagið fá greitt fyrir 23 skipti þar sem leigutakar á bílum frá bílaleigu Brimborgar höfðu lagt í bílastæðahúsinu en ekki greitt fyrir notkun þess. Krafðist rekstrarfélagið þess að fá greiddar 52.499 krónur vegna þess.

Sjá einnig: Þurfa ekki að greiða fyrir þá sem borguðu ekki fyrir bílastæðin

Landsréttur hafnaði kröfum Rekstrarfélagsins í fyrra og var því áfrýjað til Hæstaréttar í janúar. Hæstiréttur hefur nú komist að sömu niðurstöðu.

Í úrskurði Hæstaréttar segir að Brimborg hefði getað afhent Rekstrarfélaginu upplýsingar um fólkið sem leigt hafði umrædda bíla og ekki greitt fyrir bílastæði í Hafnartorgi, en það að upplýsingarnar hefðu ekki verið afhentar gerði félagið ekki ábyrgt fyrir greiðslunum, eins og forsvarsmenn Rekstrarfélagsins héldu fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×