Fótbolti

Mark frá Gló­dísi í frá­bærum sigri Bayern

Smári Jökull Jónsson skrifar
Glódís Perla sést hér skalla boltann og skora fyrir Bayern Munchen gegn Arsenal í Meistaradeild Evrópu.
Glódís Perla sést hér skalla boltann og skora fyrir Bayern Munchen gegn Arsenal í Meistaradeild Evrópu. Vísir/Getty

Glódís Perla Viggósdóttir var á meðal markaskorara Bayern Munchen sem vann frábæran sigur á Arsenal í Meistaradeild kvenna í knattspyrnu í kvöld. 

Leikurinn fór fram á heimavelli Bayern í Þýskalandi en um var að ræða fyrsta leik liðanna í riðlakeppninni. Auk þeirra eru Juventus og norska liðið Vålerenga í riðlinum.

Það voru gestirnir í Arsenal sem tóku forystuna í leiknum í dag þegar Mariona Caldentey skoraði á 30. mínútu. Á 43. mínútu jafnaði hins vegar Glódís Perla Viggósdóttir metin með góðu skallamarki og sá til þess að staðan var 1-1 í hálfleik.

Bayern tók forystuna í upphafi síðari hálfleiks með marki Sydney Lohmann en Laia Codina jafnaði metin fyrir Arsenal skömmu síðar og leikurinn í járnum.

Undir lokin gekk hins vegar heimalið Bayern frá leiknum og það var hin danska Pernille Harder sá algjörlega um það. Hún skoraði þrennu á fimmtán mínútna kafla og tryggði Bayern 5-2 sigur. 

Frábær byrjun hjá liði Bayern sem tyllir sér þar með á topp riðilsins en Glódís Perla lék allan leikinn í miðri vörn Bayern. Vålerenga og Juventus mætast í Noregi síðar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×