Vatnajökulsþjóðgarður hefur kært Niflheima fyrir framkvæmdir í svelgjum í Breiðamerkurjökli sem stofnunin telur ólöglegar. Banaslys varð í slíkum svelg í sumar þegar ísveggur hrundi ofan á ferðamann í ferð á vegum fyrirtækisins Ice Pic Journeys. Starfsmenn Niflheima höfðu haldið rásinni sem var markaðssett sem íshellir við.
Þá fengu Niflheimar ekki endurnýjað leyfi fyrir íshellaferðum þegar þau leyfi runnu út í lok september.
Engu að síður héldu starfsmenn Niflheima áfram ferðum í jökulinn í morgun. Birgir Þór Júlíusson, einn eigenda Niflheima, segir við Vísis að öll ferðaþjónustufyrirtæki sem halda úti íshellaferðum séu leyfislaus vegna handvammar þjóðgarðsins. Ekki sé búið að endurnýja leyfin sem runnu út um mánaðamótin.
„Auðvitað ætlum við að halda ferðum áfram. Ég er búinn að ráða yfir þrjátíu manns í vinnu í vetur eins og síðastliðna vetur. Ég veit ekki hvort það sé gaman að senda þau á atvinnuleysisbætur og hætta að þjónusta kúnna bara út af ákvörðun þjóðgarðs,“ segir Birgir Þór.
Starfa fyrir Tröllaferðir
Ferðirnir segir hann þó ekki á vegum Niflheima á meðan þjóðgarðurinn endurnýi ekki leyfið. Hins vegar haldi það áfram að leiðsegja í ferðum sem önnur ferðaþjónustufyrirtæki hafa þegar bókað. Ferðir í morgun hafi þannig verið í verktöku fyrir Tröllaferðir.
„Við erum náttúrulega með fullt af kúnnum og við ætlum að hjálpa þeim birgjum sem eru að senda okkur kúnna að taka þá þarna inn og vinnum þá bara undir þeirra starfsleyfi. Fyrirtækið sjálft bara liggur niðri,“ segir Birgir Þór.
Steinunn Hödd Harðardóttir, þjóðgarðsvörður, sagðist vita af því að starfsmenn Niflheima færu í ferðir fyrir Tröllaferðir í morgun en vísaði á Ingibjörgu Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs. Ekki náðist í hana við vinnslu fréttarinnar.