„Íslendingar hafa náð hérna mjög góðum úrslitum gegn erfiðum mótherjum og við verðum að vera upp á okkar besta til að ná góðum úrslitum,“ segir Davies.
Walesverjar lentu á Íslandi í gær eftir að hafa tekið æfingu heima fyrir, og eiga því eftir að kynnast vellinum í Laugardal betur. Völlurinn hefur verið lagður dúk alla vikuna til að verja hann fyrir kulda, og hitinn verður ansi nærri frostmarki í kvöld þegar leikurinn fer fram. Hafa þessar aðstæður áhrif?
„Það er sannarlega kaldara hérna en í Wales en við erum vanir alls konar veðri heima svo það er engin afsökun,“ segir varnarmaðurinn Davies en viðtalið má sjá hér að neðan.
Wales og Tyrkland eru efst í riðli Íslands með fjögur stig, Ísland er með þrjú og Svartfjallaland án stiga. Efsta lið riðilsins kemst upp í A-deild og tryggir sér væntanlega sæti í HM-umspili á næsta ári. Lítur Davies á Ísland sem keppinaut um það?
„Já, klárlega. Það eru erfið lið í þessum riðli og sérstaklega mikilvægt að standa sig í útileikjunum. Ísland hefur náð góðum úrslitum og það er ekki langt síðan liðið var í deild fyrir ofan okkur. Þessi leikur verður áskorun fyrir okkur.“
Fór í skiptum fyrir Gylfa
Davies þekkir best til íslensku leikmannanna sem spilað hafa í ensku úrvalsdeildinni. Hann hefur verið leikmaður Tottenham frá árinu 2014 þegar hann fór ásamt markverðinum Michel Vorm í skiptum fyrir Gylfa sem fór til Swansea. Gylfi, sem glímt hefur við bakmeiðsli að undanförnu en er klár í slaginn í kvöld, hafði áður verið að láni hjá Swansea.
„Ég var ungur í Swansea þegar Gylfi kom í aðalliðið okkar, svo ég náði að æfa með honum í eitt ár. En við spiluðum aldrei saman, sem var svolítil synd. Svo hef ég mætt Jóhanni Guðmundssyni ansi oft í ensku úrvalsdeildinni. Þetta eru tveir mjög góðir leikmenn með mikla reynslu á hæsta stigi, og við vitum allir að við verðum að sýna okkar besta,“ segir Davies.
Heitasti leikmaður Wales er liðsfélagi Davies hjá Tottenham, Brennan Johnson, sem skorað hefur í sex síðustu leikjum enska liðsins. Ljóst er að íslenska vörnin þarf að hafa fyrir því að stöðva hann:
„Það er frábært fyrir okkur sem landslið að hafa leikmann sem kemur inn í leikina með svona mikið sjálfstraust. Vonandi nær hann að skora nokkur mörk fyrir okkur,“ segir Davies.