Erlent

Gripu eld­flaugar­þrep á stærð við Halls­gríms­kirkju með vélarmi

Kjartan Kjartansson skrifar
Starship-eldflaugarþrepið á skotpallinum eftir að vélarmurinn greip það í Boca Chica í Texas í dag.
Starship-eldflaugarþrepið á skotpallinum eftir að vélarmurinn greip það í Boca Chica í Texas í dag. SpaceX/AP

Geimferðafyrirtækinu SpaceX tókst í fyrsta skipti að grípa risavaxið eldflaugarþrep með vélarmi á skotpallinum við tilraunaflug í dag. Eldflaugarþrepið er 71 metri á hæð, örlítið lægra en Hallgrímskirkjuturn.

Starship-eldflaugin hóf sig á loft frá sunnanverðu Texas í Bandaríkjunum í morgun. Þetta var fjórða tilraunaflug SpaceX með þessa stærstu eldflaug heims en fyrstu tvær tilraunirnar enduðu með sprengingu sem grandaði eldflauginni. Þriðja flugið í júní gekk betur.

Eitt af markmiðum tilraunaflugsins í dag var að reyna að grípa fyrsta þrep eldflaugarinnar með vélarmi á skotpallinum í Boca Chica í Texas. SpaceX hefur á undanförnum árum þróað tækni til þess að fljúga eldflaugarþrepum aftur til jarðar í heilu lagi sem hefðu annars verið einnota. Þeim þrepum hefur verið lent á prömmum út á hafi eða á pöllum langt frá skotstaðnum fram að þessu.

Eftir um sjö mínútna ferð upp og niður gufuhvolfið greip vélarmurinn eldflaugarþrepið við mikinn fögnuð starfsmanna fyrirtækisins.

„Góðir hálsar, þessi dagur fer í sögubækur verkfræðinnar,“ sagði Kate Tice, einn starfsmanna SpaceX sem lýsti útsendingu frá tilrauninni.

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA hefur pantað tvær Starship-eldflaugar frá SpaceX til þess að koma mönnum til tunglsins síðar á þessum áratug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×