Innlent

Mót­mæltu lausn manns sem var dæmdur fyrir mann­dráp í fyrra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Árásin var tekin upp á myndband.
Árásin var tekin upp á myndband.

Á fjórða tug Pólverja komu saman í dag og mótmæltu því fyrir utan áfangaheimilið Vernd að nítján ára karlmaður sem hlaut tólf ára fangelsisdóm fyrir að hafa stungið mann til bana sé laus úr fangelsi einu og hálfu ári seinna.

Frá þessu greinir Ríkisútvarpið.

Maðurinn var dæmdur í tíu ára fangelsi í héraði fyrir manndráp á bílastæðinu við Fjarðarkaup í Hafnarfirði í apríl 2023 en Landsréttur þyngdi dóminn í tólf ár. Í liðinni viku var hins vegar greint frá því að hann væri kominn á Vernd.

Samkvæmt lögum um fullnustu refsinga er heimilt að veita fanga lausn til reynslu þegar þriðjungur refsitímanns sé liðinn, ef viðkomandi var 21 eða yngri þegar hann framdi brotið. Ef gæsluvarðhaldstíminn er tekinn með hefur maðurinn nú uppfyllt umrætt skilyrði.

Maðurinn sem lést var 27 ára Pólverji og samkvæmt RÚV eru margir Pólverjar reiðir yfir því að banamaðurinn sé laus úr fangelsi eftir svo skamman tíma.

„Við erum ósammála þessari ákvörðun. Þetta er mikið tilfinningamál fyrir okkur vegna þess að sá sem var myrtur var frá Póllandi. En við erum hér ekki bara sem Pólverjar eða pólskt samfélag. Því við viljum standa við hlið Íslendinga og berjast fyrir réttlæti,“ hefur RÚV eftir Emiliu Wesola, einum af mótmælendunum.

„Það er fáránlegt og ótrúlegt að einhver sem drepur annan sé laus eftir eitt og hálft ár. Við erum ósammála þessari ákvörðun og við erum í áfalli og mjög reið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×