Innlent

Brutu leið inn á heimili fyrir sjúkralið að veita að­hlynningu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti fjölbreyttum verkefnum í nótt.
Lögregla sinnti fjölbreyttum verkefnum í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var tvívegis kölluð til í gærkvöldi og nótt til að aðstoða sjúkralið, annars vegar vegna slyss sem varð inni á heimili og hins vegar til að brjóta leið inn á heimili þannig að sjúkralið gæti veitt aðhlynningu.

Frá þessu er greint í yfirliti lögreglu yfir verkefni næturinnar.

Þar segir einnig að kona hafi verið handtekinn eftir að maður var stunginn með hnífi í miðborginni en meiðsl hans voru ekki lífshættuleg. Þá fór lögregla í eftirlit varðandi vörslu og meðferð skotvopna, þar sem lagt var hald á skotvopn og nokkur önnur vopn.

Einn var vistaður í fangageymslu sökum ölvunar og annar sem var eftirlýstur af öðru lögregluembætti.

Þá var lögregla kölluð til aðstoðar í búsetuúrræði þar sem einstaklingur var með æsing og ógnandi hegðun en málið leystist „með samtali og nærveru“. 

Þrír ökumenn voru handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum og voru tveir þeirra án ökuréttinda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×