Íslenska liðið fékk dæmd á sig tvö víti þökk sé myndbandsdómgæslu en svo fór að dómarinn var ekki sendur í skjáinn þegar Tyrkir notuðu mögulega hendina í vítateignum seinna í leiknum.
Kári Árnason og Lárus Orri Sigurðsson ræddu vítadómana í gær. Vítin voru dæmt á íslensku strákana þegar boltinn fór í hendi þeirra í teignum.
„Það skilur enginn þessa reglu lengur en það þýðir ekkert að tuða um þetta,“ sagði Kári Árnason í uppgjöri Stöð 2 Sport eftir leik.
„Þetta er mjög svekkjandi. Það er mjög erfitt að segja eitthvað við þessum tveimur handadómum nema það að við erum undir pressu og boltinn er mikið inn í teig hjá okkur. Þá er hætta á þessu,“ sagði Lárus Orri.
Kjartan Atli Kjartansson sýndi atvikið þegar Ísland vildi frá víti.
„Þarna lítur þetta út eins og víti,“ sagði Kári um sjónarhornið fyrir aftan markið.
„Framan á lítur þetta út fyrir að hafa farið í hnéð á honum og svo í brjóstkassann. Þeir hljóta að vera með einhver tæki til að hægja þetta alveg niður í millisekúndur,“ sagði Kári.
Það má sjá þessi tvö atvik og umræðuna hér fyrir neðan.