Körfubolti

Vörn Kefla­víkur gerir Pavel brjálaðan: „Konan mín þurfti að halda mér niðri“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pavel Ermolinskij ber alls konar tilfinningar til liðs Keflavíkur.
Pavel Ermolinskij ber alls konar tilfinningar til liðs Keflavíkur. stöð 2 sport

Pavel Ermolinskij hrífst af liði Keflavíkur í Bónus deild karla. Keflvíkingar geta þó líka gert hann gráhærðan með tilburðum sínum í vörninni. Pavel ræddi um Keflavík í Bónus Körfuboltakvöldi.

Keflavík tapaði fyrir Hetti, 120-115, í framlengdum leik í Bónus deildinni á fimmtudaginn. Varnarleikur Keflvíkinga var ekki upp á marga fiska í leiknum og Pavel var orðinn verulega pirraður á að horfa á hann.

„Ég á í mjög flóknu sambandi við Keflvíkinga. Það er ekkert lið sem ég hef jafn mikinn áhuga á og Keflavík. Það er svo margt þarna sem ég held með, trúi og er kominn á stað að það sé málið,“ sagði Pavel í Bónus Körfuboltakvöldi á sunnudaginn.

„En svo eru hlutir þarna. Ég var að horfa á þennan leik og konan mín þurfti að halda mér niðri svo ég myndi ekki kasta sjónvarpinu í vegginn. Við erum að tala um þá sem einhverja Íslandsmeistarakandítata og þá eru bara ákveðnir hlutir sem eru ekki í boði,“ sagði Pavel ennfremur undir myndbrotum af slæmum varnarleik Keflavíkur gegn Hetti.

Klippa: Bónus Körfuboltakvöld - Umræða um vörn Keflavíkur

Pavel benti á að vörn Keflvíkinga hefði ekki verið slæm allan leikinn en þegar hún hafi verið slæm hafi hún vart verið boðleg.

„Þeim til varnar voru þeir búnir að spila fínan varnarleik framan af leik en 4. leikhlutinn og framlengingin voru galið lélegt,“ sagði Pavel.

„Það er mjög erfitt fyrir mig að sitja hérna núna og tala um Keflavík sem Íslandsmeistarakandítata og tala þá upp, sem mig langar að gera, þegar ég horfi upp á þetta.“

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×