Skoðun

Ríkis­stjórn í al­manna­þágu, ekki auð­valds

Karl Héðinn Kristjánsson skrifar

Nú er staðfest að við göngum til kosninga 30. nóvember næstkomandi.

Stjórnmálafólk mun, líkt og venjulega, lofa öllu fögru og tala um mikilvægi þess að reisa við heilbrigðiskerfið okkar, menntakerfið, innviði, að ná niður verðbólgu og vöxtum.

Miðað við kosningabaráttu undanfarinna ára og áherslur stjórnarflokkanna mætti halda að Ísland væri á réttri leið.

Að hér væri eitt öflugasta og skilvirkasta heilbrigðiskerfi heims, að samgöngur væru til algjörrar fyrirmyndar, að hér stæði til boða tiltölulega ódýrt en gott húsnæði, sanngjarnt leiguverð og hagstæð lán, ekki síst fyrir fyrstu kaupendur.

Svo er hins vegar alls ekki raunin og við finnum það flest á eigin skinni.

Þetta er vegna þess að stjórnmálafólk bullar í okkur.

Þegar stjórnmálafólk segir okkur að þau ætli að reisa við heilbrigðiskerfi í almannaþágu og lækka skatta eru þau að bulla.

Þegar stjórnmálafólk segir okkur að það þurfi einungis að leysa markaðsöflin almennilega úr læðingi svo staða leigjenda og lántaka batni eru þau að bulla.

Þegar stjórnmálafólk segir okkur að það þurfi að „herða landamærin“ og brjóta á mannréttindum hælisleitenda svo staða almennings í landinu batni, eru þau að bulla. Og þetta er hættulegt bull.

Stjórnmálafólk hefur allt of lengi komist upp með að bulla .

Við þurfum að krefja stjórnmálafólk um hvernig nákvæmlega þau sjá fyrir sér að bæta úr stöðu almennings vegna þess að í kosningum virðast allir flokkar vera í liði með almenningi en svo standast engin loforð. Undanfarin tvö kjörtímabil hefur gróðahyggja ráðið för og við, fólkið, sitjum eftir með sárt ennið. Bak við bullið leynist nefnilega sérhagsmunahyglin sem hefur ráðið för allt of lengi.

Auðvaldið

Hvort sem litið er til heilbrigðismála, húsnæðismála, auðlindamála eða innflytjendamála hafa hagsmunir auðvaldsins vegið þyngra en hagsmunir almennings.

Það sést bersýnilega á stöðu þessara málaflokka í dag.

Braskarar hafa yfirhöndina í húsnæðismálum, fjárfestar og bankar blóðmjólka almenning.

Einkavæðing og fjársvelti er helsta stefna stjórnvalda í heilbrigðis- og velferðarmálum.

Samgönguverkefni, sem ættu að vera farin í gang, sitja á hakanum, gjaldtaka eykst á almenning og allt verður að braskvæða svo einkafjármagnið geti margfaldast og skilað eigendum sínum hagnaði. Allt á kostnað almennings í landinu.

Núverandi fjármálaráðherra, Sigurður Ingi, kallar þetta hina nýju samvinnuhugsjón en í raun snýst þessi hugsjón um að veita einkafjárfestum aðgang að peningaveskjum landsmanna án hagsbóta fyrir almenning. Öfugt við gömlu góðu Samvinnuhreyfinguna.

Innflytjendastefnan er algjörlega á forsendum auðvaldsins. Í raun mætti kalla hana stefnuleysi sem fer illa með harðduglegt fólk.

Innflytjendur eru arðrændir og fá ekki aðgang að íslenskukennslu. Kennslu sem ætti að standa þeim til boða á kostnað atvinnurekenda sem græða gríðarlega á vinnu innflytjenda.

Það væri skynsamt og réttlátt.

Ríkisstjórnin hefur svikið verkalýðshreyfinguna sem hafði krafist aðgerða gegn launaþjófnaði í lífskjarasamningunum 2019 en barátta stéttarfélaga sýnir að launaþjófnaður er algengari en við héldum.

Innflytjendur verða fyrir mun meiri launaþjófnaði og eiga í mun meiri hættu á því að það verði svindlað á þeim í vinnu en innfæddir. Starfsmannaleigur stunda félagsleg undirboð sem grefur undan stöðu verkafólks almennt.

Það er vert að hafa í huga raunverulega álagið sem hefur skapast í samfélaginu undanfarna áratugi, það eru ekki hælisleitendur og langt því frá, heldur brjálæðislegur fjöldi ferðamanna og óskipulagður vöxtur ferðaþjónustunnar sem er að setja mikið álag á innviðina okkar.

Það þarf að gera ráð fyrir vaxtarverkjum og búa í haginn í samræmi við þörf. Atvinnurekendur, eigendur og auðmenn gera þetta ekki af sjálfsdáðum. Siðferðispostular auðvaldsins hafa lengi haldið því fram að eina skylda fyrirtækja sé að skila hagnaði til eigendanna, sem mest og sem allra fyrst. Stærra samhengið og afleiðingar þessarar hagnaðarásóknar eru ekki með í jöfnunni.

Vert er að hugsa um umhverfismálin í þessu samhengi.

Krefjumst ríkisstjórnar sem vinnur að almannahag

Fyrir mitt leyti er ég kominn með algerlega nóg af þessu. Ég óska þess hér með að næsta ríkisstjórn landsins starfi að almannahagsmunum af alvörugefni og staðfestu.

Við verðum að taka á húsnæðismálunum og koma stjórn þeirra úr höndum braskara.

Við verðum að reisa við velferðarkerfin okkar, spítala, öldrunarheimili, skóla, samgöngur og aðra innviði.

Það er með öllu óboðlegt að í ríku landi eins og okkar sé ekki betur staðið að þessum málum og að barnafátækt sé að aukast hér á landi einna mest í alþjóðlegum samanburði.

Auðlindir og arður í þágu þjóðar

Í Sádi-Arabíu á konungsfjölskyldan olíuauðlindir landsins með ríkisvaldinu. Talið er að um 5 til 10% af arðsemi olíuauðlinda Sádí Arabíu renni beint til konungsfjölskyldunnar. Restin myndar um 70-75% af innkomu ríkisvaldsins. Með þessu eru tekjuskattar óþarfir en það eru engir tekjuskattar í Sádi-Arabíu.

Samkvæmt greiningu Indriða Þorlákssonar, frá 2014, rann 85% af arðsemi sjávarútvegar til útgerðarinnar en einungis um 15% til þjóðarinnar.

Þetta er algerlega óverjandi fyrirkomulag í landi sem vill kenna sig við lýðræði. Indriði: „Tilraunir til að halda því fram að þessi ofurhagnaður sé nauðsynlegur til að viðhalda framleiðslugetu og samkeppnishæfni eru blekkingar.”

Hér á þjóðin að vera að fá mikið meira fyrir sinn skerf. Það er ekki að segja að við gætum afnumið tekjuskatta ef betur væri staðið að sjávarútvegsmálum. En það væri byrjun.

Raunverulega aðgerðir í þágu almennings

Næsta ríkisstjórn verður vonandi félagshyggjustjórn.

Sósíalistaflokkurinn hefur nýlega kynnt aðgerðaráætlun í húsnæðismálum sem er hönnuð til þess að ná skjótum árangri fyrir fólkið í landinu.

Aðgerðaáætlunin gerir ráð fyrir að endurreisa og stórefla félagslega uppbyggingu húsnæðis og koma í veg fyrir eignauppsöfnun fjárfesta og leigusala. Húsnæði er fyrst og fremst til þess að lifa í, ekki leikvöllur braskara.

Sósíalistaflokkurinn hefur lengi talað fyrir því að útsvar verði tekið af fjármagnstekjum, líkt og tekið er af launatekjum almennings. Það vill auðvaldið ekki en slíkt myndi skila fjársveltum sveitarfélögum verulegum tekjum.

Sósíalistaflokkurinn vill enduruppbyggingu skattheimtunnar með það að markmiði að auðstéttin greiði eðlilegan skerf til samneyslunnar en álögum sé létt af öðrum.

Sósíalistaflokkurinn vill að auðlindir þjóðarinnar nýtist þjóðinni sjálfri, fyrst og fremst en ekki auðmönnum. Að kvótakerfið verði lagt niður í sinni núverandi mynd. Fiskveiðiheimildum skal úthluta á ný með það að markmiði að viðhalda byggð um land allt og frelsi fólks til þess að nýta sameiginlegar auðlindir.

Sósíalistaflokkurinn vill að aðgengi allra landsmanna að gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi verði tryggt. Að gjaldfrjálsri menntun á öllum skólastigum, að gjaldfrjálsu velferðarkerfi.

Sósíalistaflokkurinn vill að vinnuvika allra landsmanna verði stytt. Það er mikilvægur þáttur í því að bæta lífsgæði fólks og gera fólki kleift að lifa lífi sínu og vera virkir þátttakendur í lýðræðissamfélagi.

Sósíalistaflokkurinn vill lýðræðisvæða lífeyrissjóðina og fleiri stofnanir samfélagsins. Of lengi hafa fulltrúar atvinnurekenda fengið að stjórna lífeyrissjóðunum sem verkafólk greiðir í. Að koma þeim í hendur og stjórn fólksins myndi hagnast almenningi verulega og koma í veg fyrir óeðlileg afskipti sérhagsmuna af sjóðunum.

Sósíalistar vilja einnig lýðræðisvæða vinnustaði og stjórnir fyrirtækja.

Sósíalistaflokkurinn er einn örfárra flokka sem vill taka upp nýju stjórnarskrána og þar með virða lýðræðislegan vilja þjóðarinnar en 66,9% greiddra atkvæða samþykktu tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.

Það er glæpur gegn lýðræðinu að þær tillögur hafi ekki orðið að grunni nýrrar stjórnarskrár. „Þá ber í framhaldinu að virða stjórnarskrána en jafnframt að umgangast hana sem lifandi samfélagssáttmála, sem getur tekið breytingum með þjóðaratkvæðagreiðslu” líkt og segir í stefnu flokksins.

Með nýju stjórnarskránni yrðu þjóðaratkvæðagreiðslur mun aðgengilegri og fleiri. Þá gæti almenningur losað þingið og stjórnmálamenn frá rifrildum og afvegaleiðingum með því að afgreiða málin sjálf. Þannig ætti lýðræðið að virka.

Að lokum

Að lokum vil ég óska landsmönnum gleðilegra kosninga. Það er fagnaðarefni að þessi ríkisstjórn sé á leiðinni út. Það sem við kjósum næst mun hafa afgerandi áhrif á framtíð Íslands og fólksins á landinu.

Munum að margur stjórnmálamaðurinn er ekki allur þar sem hann er séður, það er ekki nóg að hlusta á það sem fólk segir. Það skiptir meira máli að horfa á það sem það gerir.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokknum og gefur kost á sér í framboði til þingkosninga.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×