Unnur hefur getið sér gott orð sem leikkona en starfar í dag sem verkefnastjóri og hugmynda- og textasmiður hjá Maurum auglýsingastofu. Unnur er með marga hatta og hefur sinnt fjölbreyttum verkefnum á sviði lista, hérlendis og í Bandaríkjunum. Hún var kosningastjóri VG í Reykjavík í síðustu Alþingiskosningum og samskiptastjóri framboðs Katrínar Jakobsdóttur til forseta Íslands í vor.
Unnur sýnir lesendum Vísis hina hliðina þessa vikuna.
Fullt nafn? Unnur Eggertsdóttir.
Aldur? 32 ára
Starf? Leik- og söngkona, verkefnastjóri & hugmynda- og textasmiður hjá Maurum auglýsingastofu.

Fjölskylduhagir? Bý með Travis manninum mínum og Emmu Sólrúnu dóttur okkar.
Lýstu sjálfri þér í þremur orðum: Alltaf smá kvíðin.
Hvað er á döfinni? Er nýbyrjuð hjá Maurum sem er mjög skemmtileg og kreatív stofa með fjölbreytta viðskiptavini. Við fjölskyldan höldum svo áfram okkar endalausa flakk milli New York og Íslands á meðan við klárum ýmis verkefni sem bíða okkar á báðum stöðum.
Þín mesta gæfa í lífinu? Allt fólkið í lífi mínu. Fæddist inn í kærleiksríka fjölskyldu, vinkonur mínar eru fyndnustu konur heims og maðurinn minn er ógeðslega skemmtilegur. Svo er Emma einn mesti sólargeisli sem til er.
Hvar sérðu þig eftir tíu ár? Á snekkju.
Hvað viltu upplifa áður en þú deyrð? Áhyggjuleysi.

Ertu með einhvern bucket-lista? Ferðast til fleiri landa, verða geggjað rík, læra fleiri tungumál. Við erum svo alltaf á leiðinni að halda eitthvað geggjað brúðkaup en admin-ið í kringum það er svakalegt. En skellum því hér á bucket-listann svo það gerist á endanum.
Besta heilræði sem þú hefur fengið?
Að treysta alltaf innsæinu.
Hvað hefur mótað þig mest? Að verða móðir, búa í mismunandi löndum, vera vinkona Evu Daggar, að hafa unnið mjög fjölbreytt störf á mjög ólíkum vettvöngum og að lenda í flugslysi.
Unnur var gestur Stefáns Árna í Einalífinu árið 2021 þar sem hún ræddi um leiklistina, lífið í Bandaríkjunum, ástina og allt þar á milli.
Hvað gerirðu til að endurhlaða batteríin? Rek alla út af heimilinu og elda góða máltíð með raunveruleikasjónvarp í gangi.
Uppskrift að drauma sunnudegi? Láta T vakna með Emmu svo ég geti sofið út, fá mér svo djúsí brunch með þeim, fara saman í sund, leggja mig, láta grilla góðan kvöldmat fyrir mig, fara svo í saumó með stelpunum þar sem við dettum í djúpan trúnó og slúðrum um fólk á internetinu.
Uppáhalds staðurinn á heimilinu? Baðkarið.
Fallegasti staður á landinu? Hólmavík. Göldrótt og falleg.

En í heiminum? Bærinn Fastro á Ítalíu þar sem tengdamóðir mín ólst upp. 350 manna bær í Dólómítunum. Besta pasta sem þú munt nokkurn tímann smakka og prosecco á krana á eina evru.
Hvað er það fyrsta sem þú gerir þú vaknar? Segi við dóttur mína: „neiii það er ennþá nótt ástin mín.”
En það síðasta sem þú gerir áður en þú ferð að sofa?
Horfi á Office svo ég þurfi ekki að vera ein með hugsunum mínum.
Hugarðu að heilsunni, þá hvernig? Fresta því að fara í ræktina þar til ég fæ áhyggjur um að ég fái hjartaáfall ef ég fer ekki að hreyfa mig, upplifi svo geggjað dópamínrush í ræktinni svo ég mæti aftur svona 20 daga í röð. Fæ svo ógeð af ræktinni og endurtek vítahringinn.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Leikkona eða ljósmóðir.
Hvenær fórstu að gráta síðast og af hverju? Í morgun þegar ég sá TikTok þar sem gamall maður kom heim eftir langa spítalavist og fékk loksins að hitta hundinn sinn aftur.
Ertu A eða B týpa? Hef verið neydd til að vera A týpa síðan mars 2022.
Hvaða tungumál talarðu? Íslensku, ensku, Íslendingadönsku, örlitlar leifar af spænsku og flæmsku frá því ég var krakki og er að vinna í ítölskunni á Duolingo.

Býrðu yfir einhverjum leyndum hæfileikum? Nei en þegar wordle-æðið var í gangi var ég alveg óeðlilega góð í því.
Hvaða ofurkröftum myndir þú vilja búa yfir?
Að öllum myndi líka vel við mig.
Hvað stendur í síðustu FB-skilaboðunum sem þú sendir? Ok, þú keepar mig pósted.
Draumabíllinn þinn? Einhver svona blæju-rafmagnsjeppi sem er með trilljón kílómetra batteríi og stóru skotti. Og trylltu hljóðkerfi. Rauðan, takk.
Hælar eða strigaskór? Strigaskór
Fyrsti kossinn? Í strætóskýli í Garðabæ (manstu Elli?)
Óttastu eitthvað? Allt. Ég er alltaf hrædd.
Hvað ertu að hámhorfa á? Secret Lives of Mormon Wives. Ómægaaat.
Hvaða lag kemur þér alltaf í gírinn? Jumpin’ Jumpin’ með Destiny’s Child.
Hin hliðin er vikulegur viðstalsliður hjá Lífinu á Vísi þar sem við fáum að kynnast einstaklingum úr öllum kimum þjóðfélagsins. Ábendingar um viðmælendur má senda á svavam@stod2.is.