Lífið

Harð­lega gagn­rýnd fyrir að birta myndir af líki Liam Payne

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Liam Payne lést einungis 31 árs að aldri í gær.
Liam Payne lést einungis 31 árs að aldri í gær. Christopher Polk/Getty Images

Starfsfólk bandaríska slúðurmiðilsins TMZ hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir umfjöllun sína um andlát breska söngvarans Liam Payne. Miðillinn birti myndir af líki hans en hefur nú fjarlægt þær.

Payne lést í gærkvöldi eftir að hafa fallið af svölum þriðju hæðar hótels í argentísku höfuðborginni Buenos Aires. Hann var einungis 31 árs og var líkt og alþjóð veit einn liðsmanna strákasveitarinnar One Direction sem naut gríðarlegra vinsælda árin 2010 til 2016 þegar sveitin hætti.

Í umfjöllun Deadline um málið kemur fram að TMZ hafi birt nærmyndir af líki söngvarans og greinilegt að um Liam Payne var að ræða vegna húðflúra hans. Þar segir að miðilinn hafi verið harðlega gagnrýndur í kjölfarið af aðdáendum hans og vinum.

Þeirra á meðal er kanadíska söngkonan Alessia Cara sem sagði miðilinn einstaklega ógeðfelldan. Í umfjöllun Deadline kemur fram að TMZ hafi ekki brugðist við gagnrýninni með öðrum hætti en þeim að fjarlæga myndirnar. Aðrir aðdáendur söngvarans kölluðu eftir því að miðillinn yrði sviptur leyfi sínu til fjölmiðlunar, umfjöllun hans um andlát söngvarans væri hörmulegur.

TMZ hefur sérhæft sig í slúðurfréttum af Hollywood stjörnum og birtir reglulega myndir papparassa. Miðillinn hefur oft og mörgum sinnum verið gagnrýndur fyrir fréttaflutning sinn og jafnframt stefnt, meðal annars vegna umfjöllunar sinnar um andlát körfuboltamannsins Kobe Bryant sem lést í þyrluslysi árið 2020.


Tengdar fréttir

Hringdu í neyðarlínu vegna ofsafullrar hegðunar söngvarans

Starfsfólk á hóteli þar sem breski söngvarinn Liam Payne lést í gærkvöldi hringdi á neyðarlínu skömmu fyrir andlátið vegna hegðunar söngvarans sem sagður var láta öllum illum látum á milli þess sem hann væri meðvitundarlaus vegna fíkniefnaneyslu. Erlendir miðlar hafa í dag birt upptöku af símtalinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×