Eftir því sem næst verður komist voru þrír hermenn Ísraelshers við leit í Tal El Sultan í suðurhluta Gasa í gær, þegar þeir komu auga á þrjá grunaða hryðjuverkamenn. Skutu þeir á mennina og skotbardagi braust út.
Hermennirnir vissu ekki að Sinwar væri einn af þremenningunum. Hann særðist í skotárásinni en tókst að flýja inn í byggingu.
Skömmu síðar var dróni sendur inn í umrædda byggingu og á myndskeiðinu má sjá mann klæddan höfuðklút, sem herinn bar seinna kennsl á sem Sinwar. Sat hann í stól í húsarústunum og var augljóslega særður.
Raw footage of Yahya Sinwar’s last moments: pic.twitter.com/GJGDlu7bie
— LTC Nadav Shoshani (@LTC_Shoshani) October 17, 2024
Á myndskeiðinu má sjá hvernig Sinwar fylgist með drónanum og kastar að lokum spýtu í átt að honum.
Skömmu síðar endar myndskeiðið en á eftir fylgdi árás sem er sögð hafa orðið Sinwar að bana.
Það var ekki fyrr en líkamsleifar mannsins fundust í rústunum sem menn áttuðu sig á því að líklegast væri um foringjann að ræða. Herinn hefur deilt mynd af lík manns sem vissulega líkist Sinwar en auðkenni hans var staðfest með erfðarannsókn.