Varane segir miklar breytingar hafa orðið á knattspyrnunni og hvernig hún er spiluð síðasta áratuginn. Sköpunargleði leikmanna sé skert og þeir skikkaðir til að binda sig við fastmótaðri mynstur til að spila leikinn.
„Það er mun minni sköpunargleði í fótbolta og færri snillingar á vellinum. Leikmenn eru gerðir að vélmennum. Það eru mynstur í leiknum sem gera mönnum erfitt fyrir að brjóta varnarlínur á bak aftur,“ segir Varane.
Ein undantekning sé á hæsta stigi. Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, hefti síður sköpunargleðina. Hann leggi meira traust á leikmenn sóknarlega til að spila sinn leik.
„Frelsið er töluvert minna. Carlo Ancelotti leyfir mikið frelsi, en ný kynslóð þjálfara gera það síður,“ segir Varane.
Varane var leikmaður Real Madrid í rúman áratug, frá 2011 til 2021, og lék undir stjórn Ancelottis frá 2013 til 2015. Ancelotti tók aftur við Real Madrid sumarið 2021 og hefur á þeim tíma stýrt liðinu til spænsks meistaratitils, bikartitils og tveggja Meistaradeildartitla.