Formaður Framsóknar segir ríkisstjórnina hafa talað sjálfa sig niður Heimir Már Pétursson skrifar 19. október 2024 08:02 Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins var í Samtalinu hjá Heimi Má á fimmtudag. Þar lýsti hann vonbrigðum með hvernig Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins sló ríkisstjórnina af með símtali án þess að boða til ríkisstjórnarfundar. Vísir/Vilhelm Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins hefur lagt sjálfan sig að veði í komandi alþingiskosningum með því að taka annað sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi. Þar með baráttusætið því flokkurinn hefur ekki mælst með mann inni úr kjördæminu í nýjustu könnunum. Þessi hægláti formaður Framsóknarflokksins síðustu sjö árin sker sig úr mörgum öðrum stjórnmálaleiðtogum fyrir rólegt yfirbragð og varkárni í notkun lýsingarorða. Þegar hann segist vera ósáttur við framkomu annarra eða niðurstöðu mála ættu menn því að leggja við hlustir. Reikna má með að á bakvið þau orð liggi þung undiralda. Það var augljóst á orðum Sigurðar Inga í Samtalinu með Heimi Má á Vísi á fimmtudag að hann er ekki sáttur við hvernig Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins stóð að málum þegar hann sprengdi skyndilega ríkisstjórnina á fréttamannafundi eftir að hafa tilkynnt hinum formönnum stjórnarflokkanna það í símtali með innan við klukkustundar fyrirvara. Frásögn um margboðað sjálfsmorð Formaður Framsóknarflokksins hefur gegnt fleiri ráðuneytum en flestir aðrir og setið á þingi frá fyrstu mánuðum bankahrunsins árið 2009. Hann réði miklu um að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur komst fyrst á koppinn eftir kosningarnar 2017. En frá því stjórnarsamstarfið var endurnýjað að loknum kosningum 2021 fór sundurlyndisfjandinn í vaxandi mæli að leika lausum hala og sögur af stjórnarsamstarfinu fóru að minna á Frásögn af margboðuðu morði eftir Gabriel García Márquez. Eins konar frásögn af margboðuðu sjálfsmorði. Sigurður segir mikinn óróa hafa verið meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins um langt skeið ekki síður en meðal þingmanna Vinstri grænna.Vísir/Vilhelm „Alla vega í fjölmiðlaheimi og auðvitað stjórnarandstaðan verið þar lengi. Það er líka alveg rétt að það hefur verið órói ekki síst í samstarfsflokkum okkar. Hjá Vinstri grænum, sérstaklega í aðdraganda og í kringum landsfund þeirra og ályktanirnar sem þar voru,“ sagði Sigurður Ingi í Samtalinu. „Svo er líka hægt að horfa til margra missera óróleika í Sjálfstæðisflokknum. Þar sem hver þingmaðurinn á eftir öðrum á hverjum tíma hefur komið út og gagnrýnt stefnu ríkisstjórnarinnar, allt sem viðkemur stjórnarsáttmálanum og gert samskiptin flóknari og erfiðari,“ segir formaður Framsóknarflokksins. Árangur ríkisstjórnarinnar síðast liðin sjö ár, þar með talið á yfirstandandi kjörtímabili, hafi hins vegar þrátt fyrir allt verið ótvíræður. Sundurlyndið ekki síst að finna í Sjálfstæðisflokknum Hann skrifar því sundurlyndið í ríkisstjórnum Katrínar og síðar Bjarna ekki eingöngu á þingmenn Vinstri grænna. Það hefur einnig verið öllum þeim sem fylgjast með stjórnmálum augljóst að þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa langt í frá síður en þingmenn Vinstri grænna lagt krók á leið sína til að tefja mál og svæfa bæði í ríkisstjórn og í nefndum Alþingis. Formaður Framsóknarflokksins var ekki sáttur við að vera tilkynnt það með símtali tæpri klukkustund fyrir fréttamannafund Bjarna að Sjálfstæðisflokkurinn hefði slitið stjórnarsamstarfinu.Vísir/Vilhelm „Algjörlega, það hefur verið erfitt á köflum að ná málamiðlunum, sem stjórnmál ganga jú út á. Sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa beinlínis sagt að nú sé komið nóg af málamiðlunum og það eigi ekki að vera neinar málamiðlanir. Það er auðvitað ekki gert í lýðræðisríki þar sem eru samsteypustjórnir. Það er bara gert í ríkjum þar sem annð hvort er einræði eða einn flokkur. Guði sé lof að það er ekki hér,“ segir Sigurður Ingi með augljósum þunga. Á vorþinginu 2023 var mikið brambolt á þingmönnum Vinstri grænna og alls ekki minna á þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í umræðum um afgreiðslu mála fyrir sumarleyfi þingmanna. Tugir mála voru nánast tilbúin til þriðju og lokaafgreiðslu frá nefndum þingsins en komust ekki þaðan út vegna ágreinings þingmanna þessara flokka. Þeir sem fylgdust með þingstörfum vissu vel af þessum ágreiningi og reiknuðu með að þingstörf myndu dragast langt fram í júnímánuð en þá ákvað Katrín forsætisráðherra mörgum að óvörum að loka sjoppunni og senda þingmenn heim. Skundað til sáttaumleitana á Þingvöllum „Já það var talsverður órói þá í þessu liði og kannski ekki hvað síst í Sjálfstæðisflokknum á þeim tíma,“ segir Sigurður Ingi. Það hafi því verið val formanna stjórnarflokkanna að hleypa þessum ágreiningi ekki út í þriðju umræðu. Hinn 13. október 2023 héldu þingflokkar stjórnarflokkanna síðan á Þingvöll þar sem sem tilraun var gerð til að slétta úr ágreiningsefnum og hrista fólk saman. „Endurnýjuðum vor heit eins og menn gera á Þingvöllum.“ Það dugði skammt? „Það dugði auðvitað þannig að síðasti vetur var árangursríkur og síðast liðið vor kláraði þingið mjög mörg mál. Þau mál sem ekki höfðu verið kláruð árinu áður, sem skiptu máli. En það var engu að síður þannig að það voru verkefni framundan.“ Var ríkisstjórnin komin að því að springa vorið 2023? „Ég ætla ekki að ganga svo langt að halda því fram en hún átti erfiða daga.“ Það hafi því verið skynsamlegt að ljúka þingstörfum á þeim tíma sem það var gert þá um vorið. Sjálfur hafi hann komið með fjölmörg mál inn í þingið strax í ágúst sem ekki höfðu náð afgreiðslu á vorþinginu en kláruðust á haustþinginu. Töfin á þeim málum hefði ekki komið sér illa fyrir samfélagið. Margt komst í gegn þrátt fyrir ágreining „Þau horfðu líka mörg hver til lengri tíma. Þessar lagabreytingar í kringum húsnæðismálin, sem endanlega kláruðust síðast liðið vor. Það er að segja ný húsnæðisstefna, heimild til að leyfa lífeyrissjóðunum að koma inn með beinum hætti til að byggja upp leigufélög. Takmarka lóðabraskið með takmörkunum á uppbyggingarheimildum. Margir aðrir hlutir sem horfa auðvitað til lengri tíma og skipta máli,“ segir Sigurður Ingi sem á þessum tíma gegndi embætti innviðaráðherra. Það var eins og límið hyrfi úr ríkisstjórninni með brotthvarfi Katrínar Jakobsdóttur. Óróleikinn í stjórnarsamstarfinu hafði þó í raun verið langvarandi.Vísir/Vilhelm Þegar hann horfir til baka allt frá myndun ríkisstjórnar með Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki að loknum kosningum 2017 er hann því sáttur við margt sem hann segir ríkisstjórnina hafa áorkað. Katrín Jakobsdóttir og Vinstri græn voru strax þá gagnrýnd af fólki vinstramegin í stjórnmálum fyrir að ganga til þessa samstarfs og þá aðallega við Sjálfstæðisflokkinn. Sigurður Ingi hafði hins vegar mikil áhrif á að þessi stjórn var mynduð. Áður hafði verið reynt að mynda fjögurra flokka stjórn Vinstri grænna, Framsóknar, Samfylkingar og Pirata. Mjög fljótlega eftir fund leiðtoga þessara flokka á heimili Sigurðar Inga á Syðra Langholti í Hrunamannahreppi, kom í ljós að hann treysti sér ekki í samstarf með Pírötum. „Það voru Píratar já, en það var reyndar þáverandi formaður Samfylkingarinnar (Logi Einarsson) sem sagði að það gerði kannski ekkert til þótt ríkisstjórnin myndi bara lifa í eitt ár. Ég treysti mér ekki til þess og hafði samband við Katrínu. Við höfðum verið í ágætis samskiptum í stjórnarandstöðu þennan örstutta tíma sem þáverandi ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sat.“ „Þá hafði ég samband við Katrínu“ Þarna vísar Sigurður Ingi til ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn og Bjarni myndaði með Viðreisn og Bjartri framtíð eftir kosningarnar 2016. Hún tók við völdum í janúar 2017 og sprakk einnig eins og fráfarandi ríkisstjórn Bjarna með látum hinn 30. nóvember sama ár. Eftir stuttar tilraunir til að mynda ríkisstjórn fjögurra flokka haustið 2017 hafði Sigurður Ingi samband við Katrínu og sagði að þau þyrftu að axla ábyrgð.Vísir/Vilhelm „Þá hafði ég samband við hana (Katrínu) og sagði við hana að ég myndi ekki treysta Framsókn í þetta verkefni. Ég liti svo á að sú upplausn sem búin var að vera í stjórnmálum frá 2016 yrði að ljúka. Við yrðum að axla ábyrgð. Við höfðum auðvitað reynt að búa þessa ríkisstjórn til 2016, vorum kannski komin miklu nær því en sagan sýnir. En svo varð til önnur stjórn,“ segir Sigurður Ingi. Upplausnin sem formaður Framsóknarflokksins vísar til er að vorið 2016 sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þáverandi formaður flokksins af sér embætti forsætisráðherra í ríkisstjórn flokksins með Sjálfstæðisflokknum. Í framhaldinu var síðan boðað til kosninga í október 2016 og til varð skammlíf ríkisstjórn Bjarna og áður en kosið var á ný haustið 2017 var Sigurður Ingi orðinn formaður Framsóknarflokksins og Sigmundur Davíð hafði myndað Miðflokkinn. Engin stemming fyrir enn einum kosningunum Það hafði því mikið gengið á áður en gengið var til kosninganna 2017. Mínar heimildir herma einnig að Guðni Th. Jóhannesson þá nýkjörinn forseti hafi tjáð formönnum flokkanna á meðan stjórnarmyndunartilraunir stóðu yfir að þeir skyldu ekki reikna með að forsetinn væri ginnkeyptur fyrir alþingiskosningum í bráð. „Þannig að við létum á þetta reyna 2017 með mjög miklum árangri á fyrra kjörtímabilinu. Það er óvanalegt að þriggja flokka stjórnir sitji á Íslandi í fjögur ár, hvað þá svona samsettar allt frá ysta hægri og ysta vinstri í gegnum miðjuna. Síðan eftir mjög mikinn kosningasigur okkar í Framsókn í kosningunum 2021 jók ríkisstjórnin í raun og veru fygli sitt,“ segir Sigurður Ingi. Sigurður Ingi segir að nauðsynlegt hafi verið að binda enda á upplausnar ástand í stjórnmálum 2017 þegar fyrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð.Vísir/Vilhelm Hann tekur því ekki undir þær fullyrðingar margra að það hafi verið mistök hjá formönnum stjórnarflokkanna þriggja að lýsa yfir fyrir kosningar, að ef stjórnin héldi meirihluta sínum myndu þeir fyrst taka samtal sín í milli um áframhaldandi samstarf. Hefði ekki verið skynsamlegra að segja að flokkarnir gengju óbundnir til kosninga? „Ég held reyndar að við höfum öll sagt það, að við gengjum óbundin til kosninga. En það væri ekki óeðlilegt ef ríkisstjórnin héldi meirihluta sínum að við tækjum það samtal. Enda var samstarfið búið að vera árangursríkt. Síðan var staðan þannig að það var ekki um auðugan garð að gresja af öðrum möguleikum,“ segir maðurinn sem nú hefur ofan á fjármála- og efnahagsráðuneytið bætt innviðaráðuneytinu á ný í starfsstjórn, eftir að önnur ríkisstjórn sögunnar undir forsæti Bjarna Benediktssonar hefur þrotið lífdaga. Í þetta skipti eftir aðeins sex mánuði. Augljóst að Bjarna gengur illa að halda fólki saman Margir hafa fullyrt að Katrín Jakobsdóttir hafi haldið ríkisstjórn flokkanna þriggja saman. Eftir að Bjarni tók við forsætisráðuneytinu við brotthvarf hennar hafi samstaðan í ríkisstjórninni endanlega rofnað. Tekst honum illa til að halda fólki saman og leiða til málamiðlana? „Já, það er auðvitað nokkuð augljóst og þannig tala Sjálfstæðismenn að þeir þurfi ekki að gera mikið af málamiðlunum. Það er auðvitað ekki líklegt til árangurs. Þeir eru ekki hrifnir af margflokka stjórnum. Það er að sjálfsögðu auðveldara ef þú átt í samskiptum við færri en það er hins vegar áskorun í lýðræðinu.“ Þannig að honum gekk ekki vel að halda liðinu saman? „Greinilega ekki. Þú getur bara séð það á þessu. Katrín var mjög góð í þessu. Hélt vissulega mjög marga fundi og stundum var maður orðinn þreyttur á þeim en þeir eru jú til að ná samtalinu saman. Hún hélt að sjálfsögðu Vinstri grænum saman. Það var kannski ákveðinn annar tónn þegar hún var þar í forsvari en þegar hún var hætt að vera í forsvari.“ Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur um margra mánaða skeið mælst miklu minna en flokkurinn hefur nokkru sinni átt að venjast í kosningum.Vísir/Vilhelm Ósáttur við hvernig Bjarni sleit stjórnarsamstarfinu Í ljósi þessarar sögu er því ekki undarlegt að formaður Framsóknarflokksins sé ekki alls kostar sáttur við hvernig Bjarni Benediktsson kaus skyndilega að enda stjórnarsamstarfið eftir sjö ár. Það hafi hann gert annars vegar með símtali til hans og hins vegar til Svandísar innan við klukkutíma fyrir fréttamannafund í forsætisráðuneytinu síðast liðinn sunnudag þar sem hann lýsti því yfir að stjórnarsamstarfinu væri lokið. „Það er hans einhliða ákvörðun,“ segir Sigurður Ingi. Sem vissulega hafi verið „mikilvægt stjórnarmálefni.” Samkvæmt 6. gr. laga um stjórnarráðið segir að ríkisstjórnarfundi skuli halda um „mikilvæg stjórnarmálefni,” og að „til mikilvægra stjórnarmálefna teljist t.d. reglugerðir og yfirlýsingar sem taldar eru fela í sér mikilvæga stefnumörkun eða áherslubreytingar.“ Í 16. gr. stjórnarskrár segir síðan að „lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skuli bera upp fyrir forseta í ríkisráði.” Eftir að Bjarni tilkynnti formönnum hinna stjórnarflokkanna og síðan alþjóð að samstarfinu væri lokið boðaði hann aftur á móti ekki til ríkisstjórnarfundar eins og rök hníga til að hann hefði átt að gera. Þar hefði þá komið fram sem allir máttu vita strax seinnipart sunnudags og ekki síðar en að morgni mánudags, að Vinstri græn ætluðu ekki að halda samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn áfram. Tíðar ferðir formanns Sjálfstæðisflokksins á Bessastaði Formaður Sjálfstæðisflokksins hélt hins vegar beint á fund Höllu Tómasdóttur forseta Íslands á Bessastöðum að morgni mánudags til að óska eftir þingrofi. Eftir að forsetinn hafði tekið sér tíma þann sama dag til að funda með leiðtogum allra flokka á Alþingi og forseta Alþingis á þriðjudagsmorgun, hélti Bjarni aftur á fund forseta síðdegis á þriðjudag og baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Aftur án þess að boða fyrst til ríkisstjórnarfundar. Forsetinn varð samstundis við beiðni Bjarna um bæði þingrof og kosningar 30. nóvember annars vegar og lausn allra ráðherranna frá embætti hins vegar og skipaði síðan alla ráðherra fráfarandi stjórnar í starfsstjórn. Bjarni Benediktsson hélt þrívegis til fundar við Höllu Tómasdóttur forseta Íslands á Bessastöðum. Í síðasta skiptið til að afmunstra ráðherra Vinstri grænna sem aldrei vildu vera með honum í starfsstjórn.Vísir/Vilhelm Eftir allt þetta lét Bjarni Benediktsson eins og það væri komið babb í bátinn þegar Svandís Svavarsdóttir formaður Vinstri grænna og Guðmundur Ingi Guðbrandsson varaformaður flokksins lýstu því enn og aftur yfir að þau hyggðust ekki sitja áfram með Sjálfstæðisflokknum, hvort sem væri í ríkisstjórn eða starfsstjórn. Þá fyrst á miðvikudag fannst honum ástæða til að boða til ríkisstjórnarfundar. Þar var í raun fyrst gengið frá því eftirá að þrír ráðherrar Vinstri grænna segðu af sér ráðherraembættum. Bjarni var því tilneyddur að óska eftir ríkisráðsfundi með forsetanum sem fram fór á fimmtudag. Allt þetta hefði verið hægt að afgreiða á ríkisstjórnarfundi á mánudag og ríkisráðsfundi strax þar á eftir eða á þriðjudag. Bjarni hefði því getað sparað sér tvær af þremur ferðum hans til Bessastaða. Vitlaus röð atburða við stjórnarslit Er þetta ekki vitlaus röð hjá honum? „Ég ætla alla vega að segja þetta; það hefði augljóslega verið heppilegra eftir svona langt samstarf að taka samtalið með skýrari hætti en einu símtali klukkutíma áður en blaðamannfundurinn hófst. Þá væri búið að taka þessar ákvarðanir formlega og flagga við forseta að þetta sé í vændum. Það hefði verið heppilegra á allan hátt og í anda stjórnskipunar skýrari leið. Ég held að það liggi alveg fyrir,“ segir formaður Framsóknarflokksins. Með því væri hann ekki að segja að sú leið sem Bjarni kaus væri útilokuð. „En hún er einhliða yfirlýsing Sjálfstæðisflokksins um að þeir ætli ekki að sitja lengur í þessari ríkisstjórn og þeir vilja slíta henni með þessum hætti,“ segir Sigurður Ingi. Á þeirri stundu vakni auðvitað spurningar um aðra möguleika á myndun ríkisstjórnar sem sæti út kjörtímabilið. „Það var mitt mat að það væri mjög ólíklegt í ljósi alls og yfirlýsinga. Þannig að við tókum í raun þátt í þessari vegferð. Hún er búin að vera óskýr og það hafa komið upp alls konar uppákomur sem hefðu verið óþarfi að mínu viti ef samtalið hefði verið tekið og klárað við ríkisstjórnarborðið,“ sagði Sigurður Ingi í Samtalinu á fimmtudag, tæpum fjórum klukkustundum áður en hann hélt á ríkisráðsfund á Bessastöðum til að taka við innviðaráðuneytinu í starfsstjórn með minnihluta á Alþingi. Skrifa ætti aðferð við þingrof í stjórnarsáttmála „Það hefði verið heppilegra að fara hina leiðina að halda ríkisstjórnarfund. Það má líka segja að hér á áratugum áður var það ekki óálgengt að inn í stjórnarsáttmála væri skrifað með hvaða hætti ætti að fara með slit ríkisstjórnar kæmi til þess, semsagt þingrofs. Við ræddum þetta 2021. Við töldum ekki ástæðu til þess en í ljósi þess sem nú gerist held ég að ég myndi taka það með mér inn í næstu stjórnarmyndunarviðræður. Eða ráðleggingar til þeirra sem þar munu sitja til borðs á næstunni að gera ráð fyrir því. Að skrifa að einfaldlega inn í stjórnarsáttmálann með hvaða hætti menn fara með þingrofið. Svo það sé skýrt,“ segir Sigurður Ingi. Það átti ekki fyrir annarri ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar að liggja að lifa út árið fremur en fyrri stjórnar sem hann myndaði 2017.Vísir/Vilhelm Hann tekur undir það sem Svandís Svavarsdóttir sagði í umræðum um þingrofið á Alþingi á fimmtudag að þetta hefðu allt verið einhliða ákvarðanir formanns Sjálfstæðisflokksins en sem vissulega væri einnig forsætisráðherra. Það væri hins vegar mikilvægt að menn bæru virðingu fyrir forminu um aðkomu ríkisstjórnar og forseta Íslands. „Það er ástæða fyrir því að menn hafa form og mikilvægt að virða það form. Það hjálpar til þegar eitthvað óvænt kemur upp á. Það er líka mikilvægt að menn beri virðingu hver fyrir öðrum upp á framtíðarsamstarf. Það hjálpar öllum flokkum að koma fram með þeim hætti að menn geti gengið að því vísu að stafur standi á bók og menn taki ekki svona óvæntar ákvarðanir án þess að talað sé um þær þegar um samsteypustjórnir er að ræða,“ segir formaður Framsóknarflokksins. Hann væri hins vegar meðvitaður um að hann væri að tala út frá hans miðju og framsóknarmennsku, samvinnuhugsjóna. „En ég veit alveg og hef séð og heyrt einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala um að málamiðlanir væru óþarfar. Það eigi bara að hlýða Sjálfstæðisflokknum,“ bætir hann við. Það megi aftur á móti túlka það sem „mikilvægt stjórnarmálefni“ samkvæmt lögum um stjórnarráðið að slíta stjórnarsamstarfi og eðlilegt að ræða hana fyrst á ríkisstjórnarfundi. Mögulegt var að leiða ágreining í jörð Finnst þér þá að Bjarni hafi sýnt þér persónulega og Svandís vanvirðingu með því hvernig hann framkvæmir þetta? „Ég ætla að segja að það hafi verið óheppilegt að það hafi gerst með þessum hætti. Ég hefði talið eðlilegra, ekki síst í ljósi þess að við áttum ágætis fund deginum áður (sl. laugardag) þar sem við vorum að reyna að leita leiða. Mitt mat var eftir þann fund að það væri hægt að leiða í jörðu ágreining um þau mál sem efst hafa verið á baugi. Eins og útlendingamál. Við erum búin að ná miklum árangri með þeim breytingum sem við gerðum. Annars vegar á lögunum og hins vegar verklagi,“ segir Sigurður Ingi. Ríkisstjórnin hafi einnig rofið þá kyrrstöðu sem ríkt hafi í orkumálum. Búrfellslundur geti hafið orkuframleiðslu árið 2026, Sigalda 2027 og Hvammsvirkjun 2028. „En við þurfum líka að fara að horfa lengra fram í tímann. Það er kannski áskorun sem ég er ekki viss um að þessir flokkar hefðu náð saman um. En hefði það skipt máli í einhverja mánuði, ég er ekki viss um það.“ „Ég er að segja að það hefði verið hægt en það kallaði á vilja til samstarfs og vilja til að gera áfram málamiðlanir. Ég held að það þurfi engan geimvísindamann til að sjá að það hefur ekki verið vilji Sjálfstæðisflokksins mjög lengi og ályktanir VG í haust hjálpuðu auglóslega ekki til þess heldur,“ segir Sigurður Ingi. Eftir allan ágreininginn í ríkisstjórninni allt frá 2023 að minnsta kosti er erfitt að trúa því að heitstrengingar um enn einar breytingarnar á útlendingalögum og að einn flokkur væri þeirrar skoðunar að heppilegra væri að kjósa næsta vor en ekki næsta haust væri ástæða til stjórnarslita. Lengi verið stjórnarandstaða innan Sjálfstæðisflokksins Erum við ekki bara að tala um að enginn vilji hafi verið til staðar hjá Sjálfstæðisflokknum til að halda samstarfinu áfram? „Það er bara búið að liggja lengi fyrir að einstakir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki stutt þessa ríkisstjórn. Hafa skrifað greinar um það opinberlega og hafa talað um það jafnvel oft í viku í fjölmiðlum og jafnvel á þingi. Það kemur auðvitað engum á óvart.“ Það mætti hins vegar velta því fyrir sér hvort ekki hefði verið hægt að ljúka verkefnum sem skiptu máli og væru mikilvæg. „Við erum auðvitað í miðri þessari efnahagslegu breytingu þegar er að verða kólnun í hagkerfinu. Þar sem vextir eru byrjaðir að fara niður og við horfum öll á það held ég sem samfélag að það haldi áfram. Að við náum mjúkri lendingu,“ segir fjármála, efnahags- og innviðaráðherrann. Hann hafi fulla trú á að Alþingi gæti lokið afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins fyrri kosningar og hann leggði áherslu á að það verði gert af yfirvegun. Fylgishrun stjórnarflokkanna Fylgi stjórnarflokkanna þriggja hefur hríðfallið undanfarin misseri. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist það lítið að ef þær mælingar reyndust réttar í kosningum yrði það minnsta fylgi í allri sögu flokksins. Er að undra að fylgið hrapi þegar heimilin hafa fyrst og fremst áhyggjur af mikilli verðbólgu og háum vöxtum að þá eigi sér stað hjaðningavíg á milli stjórnarflokkanna viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár. Eins og stjórnarflokkunum væri alveg sama? Hinn 5. apríl endurnýjuðu stjórnarflokkarnir heit sín þegar Bjarni Benediktsson settist í stól forsætisráðherra. Um sex mánuðum síðar var ríkisstjórnin sprungin.Vísir/Vilhelm „Það var ekki heppilegt. Þess vegna hef ég talað um það við ríkisstjórnarborðið, á óformlegum fundum við einstaka ráðherra og opinberlega. Það voru þau skilaboð sem ég sendi út á laugardaginn. Þau voru einfaldlega; gerið upp við ykkur hvort þið treystið ykkur til að búa til vinnufrið. Klárum þá verkefnin en við verðum að gera það skjótt.“ Það líður að kosningum. Hvernig skýrir þú út að Miðflokkurinn sem var stofnaður upp úr klofningi í Framsóknarflokknum nýtur miklu meira fylgis en Framsóknarflokkurinn og mælist næst stærsti flokkurinn í könnu eftir könnun? „Þú ert að vísa til Miðflokksins sem er sérkennilegt nafn því hann fór mjög fljótlega til hægri við Sjálfstæðisflokkinn. Virðist vera að keppa um fylgi við hann. Auðvitað veit ég að kjósendur sem geta hugsað sér og hafa kosið Framsókn hafa líka verið að gefa sig upp í skoðanakönnunum þar.“ „ En nei, ég get ekki útskýrt nákvæmlega hvernig á þvi stendur. Annað en það að ríkisstjórnin sé orðin mjög óvinsæl. Kannski út af því að hún hefur ekki talað sjálfa sig upp. Hún hefur talað sjálfa sig niður og aðilar innan hennar, alla vega í stjórnarliðinu, hreinlega verið í andstöðu við hana. Þannig gert henni erfiðara fyrir. Engin þörf á stjórnarandstöðu Sigurður Ingi segir að nú leggi Framsóknarflokkurinn eins og aðrir flokkar spilin á borðið og haldi út í kosningar.Vísir/Vilhelm Ég sagði stundum í fréttum að þessi ríkisstjórn þyrfti ekki á stjórnarandstöðu að halda? „Nei, enda held ég að stjórnarandstaðan hafi verið heldur veik í raun og veru. Við sáum um það verkefni fyrir þau líka,“ segir formaður Framsóknarflokksins. Nú væru kosningar hins vegar framundan þar sem hver flokkur komi fram eins og hann er. Standi fyrir það sem hann hafi unnið, hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu. „Við í Framsókn höfum svolítið liðið fyrir þennan hávaða. Af því að við höfum bara verið að vinna vinnuna okkar,“ segir Sigurður Ingi. Flokkurinn hafi reynt að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að halda ríkisstjórninni saman. „Núna erum við bara komin á þann punkt að við leggjum spilin á borðið. Hvað við höfum verið að gera í þessari ríkisstjórn í sjö ár. Líka á þessu kjörtímabili, þessi þrjú ár og hvernig við sjáum fyrir okkur framtíðina. Þá vonumst við auðvitað til að fólk sé ekki að horfa á okkur sem ríkisstjórnina, heldur þau verk sem Framsókn hefur gert,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson sem nú leggur sjálfan sig að veði í komandi kosningum með því að taka annað sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Samtalið Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar Alþingiskosningar 2024 Framsóknarflokkurinn Tengdar fréttir Íslendingar eiga ekki að aðlaga sig innflytjendum heldur öfugt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir að vogunarsjóðir hafi hótað honum þegar hann var forsætisráðherra vegna þess að hann vildi láta sjóðina taka skellinn af falli íslensku bankanna. 10. október 2024 22:02 Þorgerður Katrín: Enginn ráðskonurass undir fólki í Viðreisn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar er keppniskona með mikla reynslu af stjórnmálum og er kominn í hlaupaskóna fyrir næstu alþingiskosningar. Hún segir engann „ráðskonurass undir fólki í Viðreisn," sem taki almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni. Þegar Benedikt Jóhannesson, aðalhvatamaður að stofnun Viðreisnar og fyrsti formaður flokksins, sagði af sér formennskunni aðeins sautján dögum fyrir kosningarnar 2017, stökk Þorgerður Katrín upp í brú á þessu nýsjósetta skipi í ólgusjó íslenskra stjórnmála og kom því í höfn. 5. október 2024 08:00 Brotthvarf Katrínar hafði mikil áhrif Svandís Svavarsdóttir er staðráðin í að Vinstrihreyfingin grænt framboð nái fulltrúum á þing í næstu alþingiskosningum þótt kannanir að undanförnu sýni að þar verði á brattan að sækja. Í Samtalinu á Vísi á fimmtudag fór hún yfir erindi hreyfingarinnar, stjórnarsamstarfið með Sjálfstæðisflokki og Framsókn í sjö ár og hvaða mál það eru sem hún telur mikilvægt að ná í gegn á Alþingi fyrir kosningar. 28. september 2024 08:01 Maður margra storma íhugar stöðu sína Bjarni Benediktsson hefur í fyrsta sinn opinberlega greint frá því að hann íhugi nú stöðu sína eftir fimmtán ár í formannsstóli Sjálfstæðisflokksins. Hann geri sér grein fyrir að dagur ákvörðunar renni upp innan hálfs árs, eða fyrir landsfund flokksins sem fram fer um mánaðamótin febrúar-mars á næsta ári. Ef til vill væri kominn tími til að hleypa nýju blóði inn í forystu flokksins. 21. september 2024 08:00 Mest lesið Tjáði sig um ofbeldi sonarins fyrir andlátið: „Ætla aldrei að leyfa honum að koma nálægt mér aftur“ Innlent Allir starfsmenn jafnréttisaðgerða sendir í leyfi fyrir lok dags Erlent Yfirmaður strandgæslunnar látinn fjúka Erlent Kæra ákvörðun Trumps: „Hann getur ekki breytt stjórnarskránni með einu pennastriki“ Erlent Býður upp á nýtt loforð fyrir Flokk fólksins til að svíkja Innlent Fjárfesta í gervigreind fyrir 70 billjónir Erlent Heitar umræður um lokun flugbrautar Innlent „Gímaldið“ á borði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála Innlent Íhugar að leggja viðbótartoll á allar vörur frá Kína Erlent 76 látnir eftir eldsvoðann í Tyrklandi Erlent Fleiri fréttir Býður upp á nýtt loforð fyrir Flokk fólksins til að svíkja Tjáði sig um ofbeldi sonarins fyrir andlátið: „Ætla aldrei að leyfa honum að koma nálægt mér aftur“ „Gímaldið“ á borði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála Heitar umræður um lokun flugbrautar Eldur kviknaði í pappagámi í Skeifunni Prammi á ferðinni á Ölfusá vegna nýrrar brúar Sýklalyfjaónæmi raunveruleg ógn Kristrún væntir áframhaldandi náinna samskipta við Bandaríkin 155 milljónir til sviðslistaverkefna Dagur kveður eftir 23 ár í borginni Rýnt í fyrsta dag Trumps í embætti og deilt um Reykjavíkurflugvöll Sjúkraflug mikilvægara en „að rífast um einhver tré“ Einhver heimili enn keyrð á varaafli Hefur ekki fengið verkefni í mánuð Sjá auknar líkur á eldgosi í kortunum Öllum rýmingum aflétt Sagði skilaboð þar sem hann sagðist fullur eftirsjár fölsuð Þúsund skref aukalega skila 15 prósent lægri dánartíðni Undirbúa móttöku þeirra sem verða sendir frá Bandaríkjunum Ætla að breytast í stjórnmálaflokk á fyrsta landsfundinum í sex ár Rýmingum aflétt í Neskaupstað en ekki Seyðisfirði Ákærður fyrir tilraun til manndráps á Vopnafirði Búast við afléttingu fyrir austan í hádeginu Kaldasta árið á landinu í rúman aldarfjórðung Kallar eftir þjóðarátaki: Skólastjóri segir agaleysi innan skólanna óboðlegt Maðurinn sem ók á Ibrahim: „Skelfilegt að enda ferilinn svona“ Bein útsending: Veður og veitur – áskoranir fráveitna vegna loftslagsbreytinga Ráðast í átaksverkefni í kjölfar sýkingarinnar á Mánagarði Rýmingum væntanlega aflétt og fært um Fjarðarheiðina Kviknaði í pappírsgámi í Kópavogi Sjá meira
Þessi hægláti formaður Framsóknarflokksins síðustu sjö árin sker sig úr mörgum öðrum stjórnmálaleiðtogum fyrir rólegt yfirbragð og varkárni í notkun lýsingarorða. Þegar hann segist vera ósáttur við framkomu annarra eða niðurstöðu mála ættu menn því að leggja við hlustir. Reikna má með að á bakvið þau orð liggi þung undiralda. Það var augljóst á orðum Sigurðar Inga í Samtalinu með Heimi Má á Vísi á fimmtudag að hann er ekki sáttur við hvernig Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins stóð að málum þegar hann sprengdi skyndilega ríkisstjórnina á fréttamannafundi eftir að hafa tilkynnt hinum formönnum stjórnarflokkanna það í símtali með innan við klukkustundar fyrirvara. Frásögn um margboðað sjálfsmorð Formaður Framsóknarflokksins hefur gegnt fleiri ráðuneytum en flestir aðrir og setið á þingi frá fyrstu mánuðum bankahrunsins árið 2009. Hann réði miklu um að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur komst fyrst á koppinn eftir kosningarnar 2017. En frá því stjórnarsamstarfið var endurnýjað að loknum kosningum 2021 fór sundurlyndisfjandinn í vaxandi mæli að leika lausum hala og sögur af stjórnarsamstarfinu fóru að minna á Frásögn af margboðuðu morði eftir Gabriel García Márquez. Eins konar frásögn af margboðuðu sjálfsmorði. Sigurður segir mikinn óróa hafa verið meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins um langt skeið ekki síður en meðal þingmanna Vinstri grænna.Vísir/Vilhelm „Alla vega í fjölmiðlaheimi og auðvitað stjórnarandstaðan verið þar lengi. Það er líka alveg rétt að það hefur verið órói ekki síst í samstarfsflokkum okkar. Hjá Vinstri grænum, sérstaklega í aðdraganda og í kringum landsfund þeirra og ályktanirnar sem þar voru,“ sagði Sigurður Ingi í Samtalinu. „Svo er líka hægt að horfa til margra missera óróleika í Sjálfstæðisflokknum. Þar sem hver þingmaðurinn á eftir öðrum á hverjum tíma hefur komið út og gagnrýnt stefnu ríkisstjórnarinnar, allt sem viðkemur stjórnarsáttmálanum og gert samskiptin flóknari og erfiðari,“ segir formaður Framsóknarflokksins. Árangur ríkisstjórnarinnar síðast liðin sjö ár, þar með talið á yfirstandandi kjörtímabili, hafi hins vegar þrátt fyrir allt verið ótvíræður. Sundurlyndið ekki síst að finna í Sjálfstæðisflokknum Hann skrifar því sundurlyndið í ríkisstjórnum Katrínar og síðar Bjarna ekki eingöngu á þingmenn Vinstri grænna. Það hefur einnig verið öllum þeim sem fylgjast með stjórnmálum augljóst að þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa langt í frá síður en þingmenn Vinstri grænna lagt krók á leið sína til að tefja mál og svæfa bæði í ríkisstjórn og í nefndum Alþingis. Formaður Framsóknarflokksins var ekki sáttur við að vera tilkynnt það með símtali tæpri klukkustund fyrir fréttamannafund Bjarna að Sjálfstæðisflokkurinn hefði slitið stjórnarsamstarfinu.Vísir/Vilhelm „Algjörlega, það hefur verið erfitt á köflum að ná málamiðlunum, sem stjórnmál ganga jú út á. Sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa beinlínis sagt að nú sé komið nóg af málamiðlunum og það eigi ekki að vera neinar málamiðlanir. Það er auðvitað ekki gert í lýðræðisríki þar sem eru samsteypustjórnir. Það er bara gert í ríkjum þar sem annð hvort er einræði eða einn flokkur. Guði sé lof að það er ekki hér,“ segir Sigurður Ingi með augljósum þunga. Á vorþinginu 2023 var mikið brambolt á þingmönnum Vinstri grænna og alls ekki minna á þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í umræðum um afgreiðslu mála fyrir sumarleyfi þingmanna. Tugir mála voru nánast tilbúin til þriðju og lokaafgreiðslu frá nefndum þingsins en komust ekki þaðan út vegna ágreinings þingmanna þessara flokka. Þeir sem fylgdust með þingstörfum vissu vel af þessum ágreiningi og reiknuðu með að þingstörf myndu dragast langt fram í júnímánuð en þá ákvað Katrín forsætisráðherra mörgum að óvörum að loka sjoppunni og senda þingmenn heim. Skundað til sáttaumleitana á Þingvöllum „Já það var talsverður órói þá í þessu liði og kannski ekki hvað síst í Sjálfstæðisflokknum á þeim tíma,“ segir Sigurður Ingi. Það hafi því verið val formanna stjórnarflokkanna að hleypa þessum ágreiningi ekki út í þriðju umræðu. Hinn 13. október 2023 héldu þingflokkar stjórnarflokkanna síðan á Þingvöll þar sem sem tilraun var gerð til að slétta úr ágreiningsefnum og hrista fólk saman. „Endurnýjuðum vor heit eins og menn gera á Þingvöllum.“ Það dugði skammt? „Það dugði auðvitað þannig að síðasti vetur var árangursríkur og síðast liðið vor kláraði þingið mjög mörg mál. Þau mál sem ekki höfðu verið kláruð árinu áður, sem skiptu máli. En það var engu að síður þannig að það voru verkefni framundan.“ Var ríkisstjórnin komin að því að springa vorið 2023? „Ég ætla ekki að ganga svo langt að halda því fram en hún átti erfiða daga.“ Það hafi því verið skynsamlegt að ljúka þingstörfum á þeim tíma sem það var gert þá um vorið. Sjálfur hafi hann komið með fjölmörg mál inn í þingið strax í ágúst sem ekki höfðu náð afgreiðslu á vorþinginu en kláruðust á haustþinginu. Töfin á þeim málum hefði ekki komið sér illa fyrir samfélagið. Margt komst í gegn þrátt fyrir ágreining „Þau horfðu líka mörg hver til lengri tíma. Þessar lagabreytingar í kringum húsnæðismálin, sem endanlega kláruðust síðast liðið vor. Það er að segja ný húsnæðisstefna, heimild til að leyfa lífeyrissjóðunum að koma inn með beinum hætti til að byggja upp leigufélög. Takmarka lóðabraskið með takmörkunum á uppbyggingarheimildum. Margir aðrir hlutir sem horfa auðvitað til lengri tíma og skipta máli,“ segir Sigurður Ingi sem á þessum tíma gegndi embætti innviðaráðherra. Það var eins og límið hyrfi úr ríkisstjórninni með brotthvarfi Katrínar Jakobsdóttur. Óróleikinn í stjórnarsamstarfinu hafði þó í raun verið langvarandi.Vísir/Vilhelm Þegar hann horfir til baka allt frá myndun ríkisstjórnar með Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki að loknum kosningum 2017 er hann því sáttur við margt sem hann segir ríkisstjórnina hafa áorkað. Katrín Jakobsdóttir og Vinstri græn voru strax þá gagnrýnd af fólki vinstramegin í stjórnmálum fyrir að ganga til þessa samstarfs og þá aðallega við Sjálfstæðisflokkinn. Sigurður Ingi hafði hins vegar mikil áhrif á að þessi stjórn var mynduð. Áður hafði verið reynt að mynda fjögurra flokka stjórn Vinstri grænna, Framsóknar, Samfylkingar og Pirata. Mjög fljótlega eftir fund leiðtoga þessara flokka á heimili Sigurðar Inga á Syðra Langholti í Hrunamannahreppi, kom í ljós að hann treysti sér ekki í samstarf með Pírötum. „Það voru Píratar já, en það var reyndar þáverandi formaður Samfylkingarinnar (Logi Einarsson) sem sagði að það gerði kannski ekkert til þótt ríkisstjórnin myndi bara lifa í eitt ár. Ég treysti mér ekki til þess og hafði samband við Katrínu. Við höfðum verið í ágætis samskiptum í stjórnarandstöðu þennan örstutta tíma sem þáverandi ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sat.“ „Þá hafði ég samband við Katrínu“ Þarna vísar Sigurður Ingi til ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn og Bjarni myndaði með Viðreisn og Bjartri framtíð eftir kosningarnar 2016. Hún tók við völdum í janúar 2017 og sprakk einnig eins og fráfarandi ríkisstjórn Bjarna með látum hinn 30. nóvember sama ár. Eftir stuttar tilraunir til að mynda ríkisstjórn fjögurra flokka haustið 2017 hafði Sigurður Ingi samband við Katrínu og sagði að þau þyrftu að axla ábyrgð.Vísir/Vilhelm „Þá hafði ég samband við hana (Katrínu) og sagði við hana að ég myndi ekki treysta Framsókn í þetta verkefni. Ég liti svo á að sú upplausn sem búin var að vera í stjórnmálum frá 2016 yrði að ljúka. Við yrðum að axla ábyrgð. Við höfðum auðvitað reynt að búa þessa ríkisstjórn til 2016, vorum kannski komin miklu nær því en sagan sýnir. En svo varð til önnur stjórn,“ segir Sigurður Ingi. Upplausnin sem formaður Framsóknarflokksins vísar til er að vorið 2016 sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þáverandi formaður flokksins af sér embætti forsætisráðherra í ríkisstjórn flokksins með Sjálfstæðisflokknum. Í framhaldinu var síðan boðað til kosninga í október 2016 og til varð skammlíf ríkisstjórn Bjarna og áður en kosið var á ný haustið 2017 var Sigurður Ingi orðinn formaður Framsóknarflokksins og Sigmundur Davíð hafði myndað Miðflokkinn. Engin stemming fyrir enn einum kosningunum Það hafði því mikið gengið á áður en gengið var til kosninganna 2017. Mínar heimildir herma einnig að Guðni Th. Jóhannesson þá nýkjörinn forseti hafi tjáð formönnum flokkanna á meðan stjórnarmyndunartilraunir stóðu yfir að þeir skyldu ekki reikna með að forsetinn væri ginnkeyptur fyrir alþingiskosningum í bráð. „Þannig að við létum á þetta reyna 2017 með mjög miklum árangri á fyrra kjörtímabilinu. Það er óvanalegt að þriggja flokka stjórnir sitji á Íslandi í fjögur ár, hvað þá svona samsettar allt frá ysta hægri og ysta vinstri í gegnum miðjuna. Síðan eftir mjög mikinn kosningasigur okkar í Framsókn í kosningunum 2021 jók ríkisstjórnin í raun og veru fygli sitt,“ segir Sigurður Ingi. Sigurður Ingi segir að nauðsynlegt hafi verið að binda enda á upplausnar ástand í stjórnmálum 2017 þegar fyrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð.Vísir/Vilhelm Hann tekur því ekki undir þær fullyrðingar margra að það hafi verið mistök hjá formönnum stjórnarflokkanna þriggja að lýsa yfir fyrir kosningar, að ef stjórnin héldi meirihluta sínum myndu þeir fyrst taka samtal sín í milli um áframhaldandi samstarf. Hefði ekki verið skynsamlegra að segja að flokkarnir gengju óbundnir til kosninga? „Ég held reyndar að við höfum öll sagt það, að við gengjum óbundin til kosninga. En það væri ekki óeðlilegt ef ríkisstjórnin héldi meirihluta sínum að við tækjum það samtal. Enda var samstarfið búið að vera árangursríkt. Síðan var staðan þannig að það var ekki um auðugan garð að gresja af öðrum möguleikum,“ segir maðurinn sem nú hefur ofan á fjármála- og efnahagsráðuneytið bætt innviðaráðuneytinu á ný í starfsstjórn, eftir að önnur ríkisstjórn sögunnar undir forsæti Bjarna Benediktssonar hefur þrotið lífdaga. Í þetta skipti eftir aðeins sex mánuði. Augljóst að Bjarna gengur illa að halda fólki saman Margir hafa fullyrt að Katrín Jakobsdóttir hafi haldið ríkisstjórn flokkanna þriggja saman. Eftir að Bjarni tók við forsætisráðuneytinu við brotthvarf hennar hafi samstaðan í ríkisstjórninni endanlega rofnað. Tekst honum illa til að halda fólki saman og leiða til málamiðlana? „Já, það er auðvitað nokkuð augljóst og þannig tala Sjálfstæðismenn að þeir þurfi ekki að gera mikið af málamiðlunum. Það er auðvitað ekki líklegt til árangurs. Þeir eru ekki hrifnir af margflokka stjórnum. Það er að sjálfsögðu auðveldara ef þú átt í samskiptum við færri en það er hins vegar áskorun í lýðræðinu.“ Þannig að honum gekk ekki vel að halda liðinu saman? „Greinilega ekki. Þú getur bara séð það á þessu. Katrín var mjög góð í þessu. Hélt vissulega mjög marga fundi og stundum var maður orðinn þreyttur á þeim en þeir eru jú til að ná samtalinu saman. Hún hélt að sjálfsögðu Vinstri grænum saman. Það var kannski ákveðinn annar tónn þegar hún var þar í forsvari en þegar hún var hætt að vera í forsvari.“ Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur um margra mánaða skeið mælst miklu minna en flokkurinn hefur nokkru sinni átt að venjast í kosningum.Vísir/Vilhelm Ósáttur við hvernig Bjarni sleit stjórnarsamstarfinu Í ljósi þessarar sögu er því ekki undarlegt að formaður Framsóknarflokksins sé ekki alls kostar sáttur við hvernig Bjarni Benediktsson kaus skyndilega að enda stjórnarsamstarfið eftir sjö ár. Það hafi hann gert annars vegar með símtali til hans og hins vegar til Svandísar innan við klukkutíma fyrir fréttamannafund í forsætisráðuneytinu síðast liðinn sunnudag þar sem hann lýsti því yfir að stjórnarsamstarfinu væri lokið. „Það er hans einhliða ákvörðun,“ segir Sigurður Ingi. Sem vissulega hafi verið „mikilvægt stjórnarmálefni.” Samkvæmt 6. gr. laga um stjórnarráðið segir að ríkisstjórnarfundi skuli halda um „mikilvæg stjórnarmálefni,” og að „til mikilvægra stjórnarmálefna teljist t.d. reglugerðir og yfirlýsingar sem taldar eru fela í sér mikilvæga stefnumörkun eða áherslubreytingar.“ Í 16. gr. stjórnarskrár segir síðan að „lög og mikilvægar stjórnarráðstafanir skuli bera upp fyrir forseta í ríkisráði.” Eftir að Bjarni tilkynnti formönnum hinna stjórnarflokkanna og síðan alþjóð að samstarfinu væri lokið boðaði hann aftur á móti ekki til ríkisstjórnarfundar eins og rök hníga til að hann hefði átt að gera. Þar hefði þá komið fram sem allir máttu vita strax seinnipart sunnudags og ekki síðar en að morgni mánudags, að Vinstri græn ætluðu ekki að halda samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn áfram. Tíðar ferðir formanns Sjálfstæðisflokksins á Bessastaði Formaður Sjálfstæðisflokksins hélt hins vegar beint á fund Höllu Tómasdóttur forseta Íslands á Bessastöðum að morgni mánudags til að óska eftir þingrofi. Eftir að forsetinn hafði tekið sér tíma þann sama dag til að funda með leiðtogum allra flokka á Alþingi og forseta Alþingis á þriðjudagsmorgun, hélti Bjarni aftur á fund forseta síðdegis á þriðjudag og baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt. Aftur án þess að boða fyrst til ríkisstjórnarfundar. Forsetinn varð samstundis við beiðni Bjarna um bæði þingrof og kosningar 30. nóvember annars vegar og lausn allra ráðherranna frá embætti hins vegar og skipaði síðan alla ráðherra fráfarandi stjórnar í starfsstjórn. Bjarni Benediktsson hélt þrívegis til fundar við Höllu Tómasdóttur forseta Íslands á Bessastöðum. Í síðasta skiptið til að afmunstra ráðherra Vinstri grænna sem aldrei vildu vera með honum í starfsstjórn.Vísir/Vilhelm Eftir allt þetta lét Bjarni Benediktsson eins og það væri komið babb í bátinn þegar Svandís Svavarsdóttir formaður Vinstri grænna og Guðmundur Ingi Guðbrandsson varaformaður flokksins lýstu því enn og aftur yfir að þau hyggðust ekki sitja áfram með Sjálfstæðisflokknum, hvort sem væri í ríkisstjórn eða starfsstjórn. Þá fyrst á miðvikudag fannst honum ástæða til að boða til ríkisstjórnarfundar. Þar var í raun fyrst gengið frá því eftirá að þrír ráðherrar Vinstri grænna segðu af sér ráðherraembættum. Bjarni var því tilneyddur að óska eftir ríkisráðsfundi með forsetanum sem fram fór á fimmtudag. Allt þetta hefði verið hægt að afgreiða á ríkisstjórnarfundi á mánudag og ríkisráðsfundi strax þar á eftir eða á þriðjudag. Bjarni hefði því getað sparað sér tvær af þremur ferðum hans til Bessastaða. Vitlaus röð atburða við stjórnarslit Er þetta ekki vitlaus röð hjá honum? „Ég ætla alla vega að segja þetta; það hefði augljóslega verið heppilegra eftir svona langt samstarf að taka samtalið með skýrari hætti en einu símtali klukkutíma áður en blaðamannfundurinn hófst. Þá væri búið að taka þessar ákvarðanir formlega og flagga við forseta að þetta sé í vændum. Það hefði verið heppilegra á allan hátt og í anda stjórnskipunar skýrari leið. Ég held að það liggi alveg fyrir,“ segir formaður Framsóknarflokksins. Með því væri hann ekki að segja að sú leið sem Bjarni kaus væri útilokuð. „En hún er einhliða yfirlýsing Sjálfstæðisflokksins um að þeir ætli ekki að sitja lengur í þessari ríkisstjórn og þeir vilja slíta henni með þessum hætti,“ segir Sigurður Ingi. Á þeirri stundu vakni auðvitað spurningar um aðra möguleika á myndun ríkisstjórnar sem sæti út kjörtímabilið. „Það var mitt mat að það væri mjög ólíklegt í ljósi alls og yfirlýsinga. Þannig að við tókum í raun þátt í þessari vegferð. Hún er búin að vera óskýr og það hafa komið upp alls konar uppákomur sem hefðu verið óþarfi að mínu viti ef samtalið hefði verið tekið og klárað við ríkisstjórnarborðið,“ sagði Sigurður Ingi í Samtalinu á fimmtudag, tæpum fjórum klukkustundum áður en hann hélt á ríkisráðsfund á Bessastöðum til að taka við innviðaráðuneytinu í starfsstjórn með minnihluta á Alþingi. Skrifa ætti aðferð við þingrof í stjórnarsáttmála „Það hefði verið heppilegra að fara hina leiðina að halda ríkisstjórnarfund. Það má líka segja að hér á áratugum áður var það ekki óálgengt að inn í stjórnarsáttmála væri skrifað með hvaða hætti ætti að fara með slit ríkisstjórnar kæmi til þess, semsagt þingrofs. Við ræddum þetta 2021. Við töldum ekki ástæðu til þess en í ljósi þess sem nú gerist held ég að ég myndi taka það með mér inn í næstu stjórnarmyndunarviðræður. Eða ráðleggingar til þeirra sem þar munu sitja til borðs á næstunni að gera ráð fyrir því. Að skrifa að einfaldlega inn í stjórnarsáttmálann með hvaða hætti menn fara með þingrofið. Svo það sé skýrt,“ segir Sigurður Ingi. Það átti ekki fyrir annarri ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar að liggja að lifa út árið fremur en fyrri stjórnar sem hann myndaði 2017.Vísir/Vilhelm Hann tekur undir það sem Svandís Svavarsdóttir sagði í umræðum um þingrofið á Alþingi á fimmtudag að þetta hefðu allt verið einhliða ákvarðanir formanns Sjálfstæðisflokksins en sem vissulega væri einnig forsætisráðherra. Það væri hins vegar mikilvægt að menn bæru virðingu fyrir forminu um aðkomu ríkisstjórnar og forseta Íslands. „Það er ástæða fyrir því að menn hafa form og mikilvægt að virða það form. Það hjálpar til þegar eitthvað óvænt kemur upp á. Það er líka mikilvægt að menn beri virðingu hver fyrir öðrum upp á framtíðarsamstarf. Það hjálpar öllum flokkum að koma fram með þeim hætti að menn geti gengið að því vísu að stafur standi á bók og menn taki ekki svona óvæntar ákvarðanir án þess að talað sé um þær þegar um samsteypustjórnir er að ræða,“ segir formaður Framsóknarflokksins. Hann væri hins vegar meðvitaður um að hann væri að tala út frá hans miðju og framsóknarmennsku, samvinnuhugsjóna. „En ég veit alveg og hef séð og heyrt einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala um að málamiðlanir væru óþarfar. Það eigi bara að hlýða Sjálfstæðisflokknum,“ bætir hann við. Það megi aftur á móti túlka það sem „mikilvægt stjórnarmálefni“ samkvæmt lögum um stjórnarráðið að slíta stjórnarsamstarfi og eðlilegt að ræða hana fyrst á ríkisstjórnarfundi. Mögulegt var að leiða ágreining í jörð Finnst þér þá að Bjarni hafi sýnt þér persónulega og Svandís vanvirðingu með því hvernig hann framkvæmir þetta? „Ég ætla að segja að það hafi verið óheppilegt að það hafi gerst með þessum hætti. Ég hefði talið eðlilegra, ekki síst í ljósi þess að við áttum ágætis fund deginum áður (sl. laugardag) þar sem við vorum að reyna að leita leiða. Mitt mat var eftir þann fund að það væri hægt að leiða í jörðu ágreining um þau mál sem efst hafa verið á baugi. Eins og útlendingamál. Við erum búin að ná miklum árangri með þeim breytingum sem við gerðum. Annars vegar á lögunum og hins vegar verklagi,“ segir Sigurður Ingi. Ríkisstjórnin hafi einnig rofið þá kyrrstöðu sem ríkt hafi í orkumálum. Búrfellslundur geti hafið orkuframleiðslu árið 2026, Sigalda 2027 og Hvammsvirkjun 2028. „En við þurfum líka að fara að horfa lengra fram í tímann. Það er kannski áskorun sem ég er ekki viss um að þessir flokkar hefðu náð saman um. En hefði það skipt máli í einhverja mánuði, ég er ekki viss um það.“ „Ég er að segja að það hefði verið hægt en það kallaði á vilja til samstarfs og vilja til að gera áfram málamiðlanir. Ég held að það þurfi engan geimvísindamann til að sjá að það hefur ekki verið vilji Sjálfstæðisflokksins mjög lengi og ályktanir VG í haust hjálpuðu auglóslega ekki til þess heldur,“ segir Sigurður Ingi. Eftir allan ágreininginn í ríkisstjórninni allt frá 2023 að minnsta kosti er erfitt að trúa því að heitstrengingar um enn einar breytingarnar á útlendingalögum og að einn flokkur væri þeirrar skoðunar að heppilegra væri að kjósa næsta vor en ekki næsta haust væri ástæða til stjórnarslita. Lengi verið stjórnarandstaða innan Sjálfstæðisflokksins Erum við ekki bara að tala um að enginn vilji hafi verið til staðar hjá Sjálfstæðisflokknum til að halda samstarfinu áfram? „Það er bara búið að liggja lengi fyrir að einstakir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki stutt þessa ríkisstjórn. Hafa skrifað greinar um það opinberlega og hafa talað um það jafnvel oft í viku í fjölmiðlum og jafnvel á þingi. Það kemur auðvitað engum á óvart.“ Það mætti hins vegar velta því fyrir sér hvort ekki hefði verið hægt að ljúka verkefnum sem skiptu máli og væru mikilvæg. „Við erum auðvitað í miðri þessari efnahagslegu breytingu þegar er að verða kólnun í hagkerfinu. Þar sem vextir eru byrjaðir að fara niður og við horfum öll á það held ég sem samfélag að það haldi áfram. Að við náum mjúkri lendingu,“ segir fjármála, efnahags- og innviðaráðherrann. Hann hafi fulla trú á að Alþingi gæti lokið afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins fyrri kosningar og hann leggði áherslu á að það verði gert af yfirvegun. Fylgishrun stjórnarflokkanna Fylgi stjórnarflokkanna þriggja hefur hríðfallið undanfarin misseri. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist það lítið að ef þær mælingar reyndust réttar í kosningum yrði það minnsta fylgi í allri sögu flokksins. Er að undra að fylgið hrapi þegar heimilin hafa fyrst og fremst áhyggjur af mikilli verðbólgu og háum vöxtum að þá eigi sér stað hjaðningavíg á milli stjórnarflokkanna viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár. Eins og stjórnarflokkunum væri alveg sama? Hinn 5. apríl endurnýjuðu stjórnarflokkarnir heit sín þegar Bjarni Benediktsson settist í stól forsætisráðherra. Um sex mánuðum síðar var ríkisstjórnin sprungin.Vísir/Vilhelm „Það var ekki heppilegt. Þess vegna hef ég talað um það við ríkisstjórnarborðið, á óformlegum fundum við einstaka ráðherra og opinberlega. Það voru þau skilaboð sem ég sendi út á laugardaginn. Þau voru einfaldlega; gerið upp við ykkur hvort þið treystið ykkur til að búa til vinnufrið. Klárum þá verkefnin en við verðum að gera það skjótt.“ Það líður að kosningum. Hvernig skýrir þú út að Miðflokkurinn sem var stofnaður upp úr klofningi í Framsóknarflokknum nýtur miklu meira fylgis en Framsóknarflokkurinn og mælist næst stærsti flokkurinn í könnu eftir könnun? „Þú ert að vísa til Miðflokksins sem er sérkennilegt nafn því hann fór mjög fljótlega til hægri við Sjálfstæðisflokkinn. Virðist vera að keppa um fylgi við hann. Auðvitað veit ég að kjósendur sem geta hugsað sér og hafa kosið Framsókn hafa líka verið að gefa sig upp í skoðanakönnunum þar.“ „ En nei, ég get ekki útskýrt nákvæmlega hvernig á þvi stendur. Annað en það að ríkisstjórnin sé orðin mjög óvinsæl. Kannski út af því að hún hefur ekki talað sjálfa sig upp. Hún hefur talað sjálfa sig niður og aðilar innan hennar, alla vega í stjórnarliðinu, hreinlega verið í andstöðu við hana. Þannig gert henni erfiðara fyrir. Engin þörf á stjórnarandstöðu Sigurður Ingi segir að nú leggi Framsóknarflokkurinn eins og aðrir flokkar spilin á borðið og haldi út í kosningar.Vísir/Vilhelm Ég sagði stundum í fréttum að þessi ríkisstjórn þyrfti ekki á stjórnarandstöðu að halda? „Nei, enda held ég að stjórnarandstaðan hafi verið heldur veik í raun og veru. Við sáum um það verkefni fyrir þau líka,“ segir formaður Framsóknarflokksins. Nú væru kosningar hins vegar framundan þar sem hver flokkur komi fram eins og hann er. Standi fyrir það sem hann hafi unnið, hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu. „Við í Framsókn höfum svolítið liðið fyrir þennan hávaða. Af því að við höfum bara verið að vinna vinnuna okkar,“ segir Sigurður Ingi. Flokkurinn hafi reynt að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að halda ríkisstjórninni saman. „Núna erum við bara komin á þann punkt að við leggjum spilin á borðið. Hvað við höfum verið að gera í þessari ríkisstjórn í sjö ár. Líka á þessu kjörtímabili, þessi þrjú ár og hvernig við sjáum fyrir okkur framtíðina. Þá vonumst við auðvitað til að fólk sé ekki að horfa á okkur sem ríkisstjórnina, heldur þau verk sem Framsókn hefur gert,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson sem nú leggur sjálfan sig að veði í komandi kosningum með því að taka annað sæti á lista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi.
Samtalið Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar Alþingiskosningar 2024 Framsóknarflokkurinn Tengdar fréttir Íslendingar eiga ekki að aðlaga sig innflytjendum heldur öfugt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir að vogunarsjóðir hafi hótað honum þegar hann var forsætisráðherra vegna þess að hann vildi láta sjóðina taka skellinn af falli íslensku bankanna. 10. október 2024 22:02 Þorgerður Katrín: Enginn ráðskonurass undir fólki í Viðreisn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar er keppniskona með mikla reynslu af stjórnmálum og er kominn í hlaupaskóna fyrir næstu alþingiskosningar. Hún segir engann „ráðskonurass undir fólki í Viðreisn," sem taki almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni. Þegar Benedikt Jóhannesson, aðalhvatamaður að stofnun Viðreisnar og fyrsti formaður flokksins, sagði af sér formennskunni aðeins sautján dögum fyrir kosningarnar 2017, stökk Þorgerður Katrín upp í brú á þessu nýsjósetta skipi í ólgusjó íslenskra stjórnmála og kom því í höfn. 5. október 2024 08:00 Brotthvarf Katrínar hafði mikil áhrif Svandís Svavarsdóttir er staðráðin í að Vinstrihreyfingin grænt framboð nái fulltrúum á þing í næstu alþingiskosningum þótt kannanir að undanförnu sýni að þar verði á brattan að sækja. Í Samtalinu á Vísi á fimmtudag fór hún yfir erindi hreyfingarinnar, stjórnarsamstarfið með Sjálfstæðisflokki og Framsókn í sjö ár og hvaða mál það eru sem hún telur mikilvægt að ná í gegn á Alþingi fyrir kosningar. 28. september 2024 08:01 Maður margra storma íhugar stöðu sína Bjarni Benediktsson hefur í fyrsta sinn opinberlega greint frá því að hann íhugi nú stöðu sína eftir fimmtán ár í formannsstóli Sjálfstæðisflokksins. Hann geri sér grein fyrir að dagur ákvörðunar renni upp innan hálfs árs, eða fyrir landsfund flokksins sem fram fer um mánaðamótin febrúar-mars á næsta ári. Ef til vill væri kominn tími til að hleypa nýju blóði inn í forystu flokksins. 21. september 2024 08:00 Mest lesið Tjáði sig um ofbeldi sonarins fyrir andlátið: „Ætla aldrei að leyfa honum að koma nálægt mér aftur“ Innlent Allir starfsmenn jafnréttisaðgerða sendir í leyfi fyrir lok dags Erlent Yfirmaður strandgæslunnar látinn fjúka Erlent Kæra ákvörðun Trumps: „Hann getur ekki breytt stjórnarskránni með einu pennastriki“ Erlent Býður upp á nýtt loforð fyrir Flokk fólksins til að svíkja Innlent Fjárfesta í gervigreind fyrir 70 billjónir Erlent Heitar umræður um lokun flugbrautar Innlent „Gímaldið“ á borði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála Innlent Íhugar að leggja viðbótartoll á allar vörur frá Kína Erlent 76 látnir eftir eldsvoðann í Tyrklandi Erlent Fleiri fréttir Býður upp á nýtt loforð fyrir Flokk fólksins til að svíkja Tjáði sig um ofbeldi sonarins fyrir andlátið: „Ætla aldrei að leyfa honum að koma nálægt mér aftur“ „Gímaldið“ á borði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála Heitar umræður um lokun flugbrautar Eldur kviknaði í pappagámi í Skeifunni Prammi á ferðinni á Ölfusá vegna nýrrar brúar Sýklalyfjaónæmi raunveruleg ógn Kristrún væntir áframhaldandi náinna samskipta við Bandaríkin 155 milljónir til sviðslistaverkefna Dagur kveður eftir 23 ár í borginni Rýnt í fyrsta dag Trumps í embætti og deilt um Reykjavíkurflugvöll Sjúkraflug mikilvægara en „að rífast um einhver tré“ Einhver heimili enn keyrð á varaafli Hefur ekki fengið verkefni í mánuð Sjá auknar líkur á eldgosi í kortunum Öllum rýmingum aflétt Sagði skilaboð þar sem hann sagðist fullur eftirsjár fölsuð Þúsund skref aukalega skila 15 prósent lægri dánartíðni Undirbúa móttöku þeirra sem verða sendir frá Bandaríkjunum Ætla að breytast í stjórnmálaflokk á fyrsta landsfundinum í sex ár Rýmingum aflétt í Neskaupstað en ekki Seyðisfirði Ákærður fyrir tilraun til manndráps á Vopnafirði Búast við afléttingu fyrir austan í hádeginu Kaldasta árið á landinu í rúman aldarfjórðung Kallar eftir þjóðarátaki: Skólastjóri segir agaleysi innan skólanna óboðlegt Maðurinn sem ók á Ibrahim: „Skelfilegt að enda ferilinn svona“ Bein útsending: Veður og veitur – áskoranir fráveitna vegna loftslagsbreytinga Ráðast í átaksverkefni í kjölfar sýkingarinnar á Mánagarði Rýmingum væntanlega aflétt og fært um Fjarðarheiðina Kviknaði í pappírsgámi í Kópavogi Sjá meira
Íslendingar eiga ekki að aðlaga sig innflytjendum heldur öfugt Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir að vogunarsjóðir hafi hótað honum þegar hann var forsætisráðherra vegna þess að hann vildi láta sjóðina taka skellinn af falli íslensku bankanna. 10. október 2024 22:02
Þorgerður Katrín: Enginn ráðskonurass undir fólki í Viðreisn Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar er keppniskona með mikla reynslu af stjórnmálum og er kominn í hlaupaskóna fyrir næstu alþingiskosningar. Hún segir engann „ráðskonurass undir fólki í Viðreisn," sem taki almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni. Þegar Benedikt Jóhannesson, aðalhvatamaður að stofnun Viðreisnar og fyrsti formaður flokksins, sagði af sér formennskunni aðeins sautján dögum fyrir kosningarnar 2017, stökk Þorgerður Katrín upp í brú á þessu nýsjósetta skipi í ólgusjó íslenskra stjórnmála og kom því í höfn. 5. október 2024 08:00
Brotthvarf Katrínar hafði mikil áhrif Svandís Svavarsdóttir er staðráðin í að Vinstrihreyfingin grænt framboð nái fulltrúum á þing í næstu alþingiskosningum þótt kannanir að undanförnu sýni að þar verði á brattan að sækja. Í Samtalinu á Vísi á fimmtudag fór hún yfir erindi hreyfingarinnar, stjórnarsamstarfið með Sjálfstæðisflokki og Framsókn í sjö ár og hvaða mál það eru sem hún telur mikilvægt að ná í gegn á Alþingi fyrir kosningar. 28. september 2024 08:01
Maður margra storma íhugar stöðu sína Bjarni Benediktsson hefur í fyrsta sinn opinberlega greint frá því að hann íhugi nú stöðu sína eftir fimmtán ár í formannsstóli Sjálfstæðisflokksins. Hann geri sér grein fyrir að dagur ákvörðunar renni upp innan hálfs árs, eða fyrir landsfund flokksins sem fram fer um mánaðamótin febrúar-mars á næsta ári. Ef til vill væri kominn tími til að hleypa nýju blóði inn í forystu flokksins. 21. september 2024 08:00
Tjáði sig um ofbeldi sonarins fyrir andlátið: „Ætla aldrei að leyfa honum að koma nálægt mér aftur“ Innlent
Tjáði sig um ofbeldi sonarins fyrir andlátið: „Ætla aldrei að leyfa honum að koma nálægt mér aftur“
Tjáði sig um ofbeldi sonarins fyrir andlátið: „Ætla aldrei að leyfa honum að koma nálægt mér aftur“ Innlent