Innlent

Rit­stjóri Mos­fellings vill leiða lista Sjálf­stæðis­manna

Atli Ísleifsson skrifar
Hilmar Gunnarsson hefur ritstýrt Mosfellingi síðustu tuttugu árin.
Hilmar Gunnarsson hefur ritstýrt Mosfellingi síðustu tuttugu árin.

Hilmar Gunnarsson hefur ákveðið að ákveðið að gefa kost á sér til að leiða lista Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ í komandi sveitarstjórnarkosningum sem fram fara í maí næstkomandi. 

Hilmar hefur ritstýrt bæjarblaðinu Mosfellingi síðustu tuttugu ár auk þess að halda utan um bæjarhátíðina Í túninu heima og félagsheimilið Hlégarð síðustu ár. Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ fer fram 31. janúar næstkomandi.

Hilmar greinir frá þessu í Mosfellingi sem og á Facebook-síðu sinni.

„Kæru vinir. Það er komið að því að skipta um gír.

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ sem fram fer þann 31. janúar 2026.

Ég hlakka til að takast á við nýjar áskoranir og halda áfram að sinna mínu helsta áhugamáli, sem er Mosfellsbær.

FYRIR HEIMABÆINN MINN,“ segir í færslu Hilmars.

Hilmar er giftur Oddnýju Þóru Logadóttur og eiga þau synina Kristófer, Loga og Kára.

Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 27,3 prósent í kosningunum til sveitarstjórnar Mosfellsbæjar árið 2022 og fjóra fulltrúa kjörna. Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Viðreisn mynduðu meirihluta í Mosfellsbæ að kosningum loknum.

Fram kemur að Anna Ólöf Sveinbjörnsdóttir muni taka við ritstjórn blaðsins en hún hefur starfað á blaðinu í fjórtán ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×