Innlent

Búin að biðja Jón af­sökunar

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Jón Gunnarsson og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir bjóða sig bæði fram í 2. sæti í Suðvesturkjördæmi og verður krefjandi fyrir uppstillingarnefnd að velja á milli þeirra.
Jón Gunnarsson og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir bjóða sig bæði fram í 2. sæti í Suðvesturkjördæmi og verður krefjandi fyrir uppstillingarnefnd að velja á milli þeirra. Vísir/Vilhelm

Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dótt­ir utanríkisráðherra hef­ur beðið Jón Gunn­ars­son, flokks­fé­laga sinn, af­sök­un­ar fyrir að hafa ekki látið hann vita fyrirfram að hún byði sig fram í annað sæti á lista Sjálf­stæðis­flokks­ins í Suðvest­ur­kjör­dæmi.

Í vikunni kom fram að Jón hefði ekkert heyrt af því að Þórdís hygðist bjóða sig fram í kjördæminu fyrr en hann las um það í Morgunblaðinu. 

Þá var hann þegar bú­inn að lýsa því yfir að hann ætlaði að sækjast aft­ur eft­ir öðru sæt­inu sem hann hefur vermt frá því í próf­kjöri fyrir síðustu alþing­is­kosn­ingar.

Búin að sjatla málið

Greint var frá málinu í Spursmálum mbl.is þar sem Jón og Þórdís voru bæði gestir. Þar spurði Stefán Einar Stefánsson Þórdísi hvort það hefði ekki verið klókt eða kurteisi að setja sig í samband við Jón.

„Fyrst þegar ég set það út í kosmósið að þetta sé eitthvað sem ég sé að íhuga þá er ég á þeim tímapunkti ekki búin að taka ákvörðun um hvernig er best að gera þetta. Einmitt af því þetta kemur allt mjög hratt upp,“ svaraði Þórdís og sagði svo: 

„Auðvitað hefði ég átt að láta hann form­lega vita og ræða það og fara yfir það hvers vegna ég væri að gera þetta. Það er ég búin að segja við Jón og ég hef beðið hann af­sök­un­ar á því að hafa ekki gert það með form­leg­um hætti. 

„Við erum búin að sjatla það á milli okk­ar,“ skaut Jón þá inn í áður en Þórdís hélt áfram:

„Við Jón höf­um auðvitað starfað sam­an í mörg ár og farið sam­an í gegn­um alls kon­ar bar­átt­ur og slagi, inn­an­flokks og við and­stæðinga. Jón er vin­ur minn, hann er með sterka stöðu í Suðvest­ur­kjör­dæmi, hann er bú­inn að vera mjög lengi og líka í alls kon­ar hlut­verk­um, neðarlega á lista, of­ar­lega á lista eins og ég hef verið í Suðvest­ur­kjör­dæmi.“


Tengdar fréttir

Sunnudagurinn í Valhöll gæti orðið úrslitastund fyrir Þórdísi

Reikna má með fjölmenni í Valhöll á sunnudaginn þegar hart verður barist um sæti á lista flokksins fyrir Alþingiskosningarnar þann 30. nóvember næstkomandi. Formaður og varaformaður bjóða sig fram í tvö efstu sætin en reikna má með að varaformaðurinn fái harða baráttu um annað sætið. Sigur yrði risaskref í átt til formennsku en tap gæti sett frekari frama innan flokksins úr skorðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×