Innlent

Lygavaðall um Þór­dísi og enginn sakni vinstrisins

Jakob Bjarnar skrifar
Björn Bjarnason fer hamförum í skrifum á elstu bloggsíðu landsins. Hér er hann viðstaddur athöfn sem haldin var þegar Hannes Hólmsteinn Gissurarson yfirgaf Háskólann.
Björn Bjarnason fer hamförum í skrifum á elstu bloggsíðu landsins. Hér er hann viðstaddur athöfn sem haldin var þegar Hannes Hólmsteinn Gissurarson yfirgaf Háskólann. vísir/vilhelm

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, skrifar nú á bloggsíðu sína sem aldrei fyrr og er afdráttarlaus í skoðunum. Björn rekur elstu bloggsíðu landsins. bjorn.is og virðist í ham.

Í einum af nýjustu bloggpistlum sínum segir Björn meðal annars að nú liggi fyrir að Vinstri græn séu að hverfa af vettvangi og enginn sakni þess. Hann segir gleðiefni að vinstrið sé að hverfa.

Fimm þingmenn Vinstri grænna verða ekki á lista flokksins í komandi kosningum.Vísir/Vilhelm

Vinstrið að hverfa og þess saknar enginn

Björn vitnar til nýrra bóka þeirra Ólafs Ragnars Grímssonar forseta og Svavars heitins Gestssonar sem um tíma var aðalsamningamaður landsins um Icesave. Þau lýsi innbyrðis átökum gamalla fylkinga í Alþýðubandalaginu.

Nú hafi stjórninni verið slitið og framkvæmdin fumlaus eins og allt sem gerst hefur undir forystu Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins, að mati Björns.

Bjarni Benediktsson en Björn lýsir því yfir að allar aðgerðir hans hafi verið fumlausar.vísir/vilhelm

„Þegar Ólafur Ragnar fól Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni að mynda minnihlutastjórn 1. febrúar 2009 með stuðningi SDG var markmiðið öðrum þræði að ýta Sjálfstæðisflokknum varanlega til hliðar. Nú í október 2024 eru líkur á að VG hverfi af þingi og enginn sakni flokksins,“ segir Björn.

Lygavaðall um Þórdísi

Ekki fer á milli mála að hollusta Björns gagnvart forystu Sjálfstæðisflokksins er söm við sig. Í öðrum pistli sem Björn reit fyrir helgi gerir hann að umtalsefni að nú megi lesa þá „lygasögu“ sem gekk út á að sverta hlut Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og varaformanns Sjálfstæðisflokks þess efnis að gjaldþrot Tæknifyrirtækis Skagans megi rekja til hennar.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir nýtur stuðnings Björns en hann vekur athygli á því að meira en vafasamt sé að vilja klína þroti Skagans á hana.vísir/vilhelm

Björn rekur að Þórdísi hafi verið kennt um ófarir fyrirtækisins með því að loka á talsamband við Rússa, en ekkert annað ESB-ríki hefur lokað sendiráði sínu í Moskvu, en slíkt sé hrein og klár firra því afkoma Skagans hafi farið á verri veg löngu áður. Björn birtir meðfylgjandi mynd því til sönnunar:

Björn segir erfitt að átta sig á því hvað vakir fyrir þeim sem spinni slíkan lygavef um Skagann eða hvaða hagsmunum það þjóni öðrum en ganga erindi Pútíns.

„Það er mikil bíræfni nú, árið 2024, að ljúga því að ákvörðun sem tekin var af illri nauðsyn sumarið 2023 um lokun sendiráðsins í Moskvu 1. ágúst 2023 hafi leitt til gjaldþrots Skagans sem hvarf frá öllum verkefnum í Rússlandi árið 2021. Eftir að Pútin réðst inn í Úkraínu 2022 hrundi grunnur allra vestrænna hátækniviðskipta við Rússa,“ skrifar Björn. Hann ætti því að vera ánægður með þróun mála en Þórdís hafði betur gegn Jóni Gunnarssyni í baráttu um annað sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Kraganum í gær.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Enn að átta sig á breyttri stöðu eftir tapið fyrir Þór­dísi

Jón Gunnarsson segist ekki enn farinn að velta fyrir sér hvað taki við hjá sér eftir að hann var undir í baráttu við Þórdísi Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur um annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi í gær.

„Ég lagði allt undir“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, er ánægð með að hafa hlotið annað sætið í Suðvesturkjördæmi. Hún segist hafa lagt allt undir og niðurstaðan sé afgerandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×